30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2642)

50. mál, stofnun landsbanka

Þorsteinn Jónsson:

Allsherjanefndin hefir hallast að frv. þessu. Virðist helst mega ráða það af nefndarálitinu, að nefndinni hafi fundist frv. svo meinlítið, að ekki væri nein ástæða til að leggjast á móti því. Hv. frsm. (M. G.) tók það fram, að viðskiftin við útibúið mundu ekki verða minni í Suður-Múlasýslu, heldur en þótt það væri sett niður á Seyðisfirði. Með því hefir hann þó ekki sannað, að viðskiftin verði meiri annarsstaðar en á Seyðisfirði, Enda er ekki hægt að sanna það með neinum rökum. Mjer skilst líka, að hjer sje að, eins um tvo staði að ræða, Eskifjörð eða Seyðisfjörð. Það mun vera ætlun manna, að útibúið verði sett á Eskifirði, ef það verður í Suður-Múlasýslu, svo að hjer er að eins um það að ræða, hvor þessara staða sje betur fallinn fyrir útibúið. Frsm. (M. G.) sagði, að Norðmýlingar væru einir um það — eða því sem næst — að óska útibúsins á Seyðisfirði. Að vísu gat hann þess, að Norður-Þingeyingar hefðu látið uppi ósk um hið sama, en hv. frsm. vildi leggja lítið upp úr þessari ósk. En á það ber þó að líta, að samgöngur eru einmitt mjög tíðar milli Norður-Þingeyjarsýslu og Seyðisfjarðar, en því nær engar við önnur kauptún á Austfjörðum. Óskir Norður-Þingeyinga eru líka allákveðnar í þessu efni, eins og sýslufundargerð þeirra frá 31. maí ber með sjer, og í brjefi frá 5. júlí segir sýslumaður Þingeyinga, að helmingur af Norðursýslunni geti notað útibúið, ef það verði á Seyðisfirði, en alls ekki, ef það verði sunnar. Hv. frsm. (M. G.) fanst ástæða til, að taka meira tillit til Austur-Skaftfellinga. Mjer er ekki kunnugt um, að þeir hafi skift sjer neitt af þessu máli. Jeg hefi að minsta kosti ekki sjeð neina ósk frá þeim. Jeg efast líka mjög um það, að þeir eigi nokkru óhægra með að sækja til Seyðisfjarðar en til annara kauptúna á Austfjörðum.

Þá gat frsm. (M. G.) þess, að 3 menn úr bankastjórninni væru því fylgjandi að setja útibúið í Suður-Múlasýslu. Fyrst að svo er, sje jeg enga ástæðu til að breyta lögunum. Bankastjórnin mundi vafalaust ráða landsstjórninni til að setja útibúið þar, sem hún teldi það vera best niður komið og ná best tilgangi sínum. Það væri því þess vegna óhætt að láta lögin standa óbreytt.

Viðvíkjandi skeytinu frá þessum 15 kaupfjelagsfulltrúum á Egilsstaðafundinum er það að segja, að ósk þeirra hljóðaði um Reyðarfjörð. Það hefi jeg líka áður sagt, að verði útibúið ekki á Seyðisfirði, þá eigi það hvergi annarsstaðar að vera en á Reyðarfirði. En jeg veit ekki, hvort þeim er svo mikið í mun að fá útibúið á Eskifirði, eins og helst mun vera í ráði. Hv. frsm. (M. G.) sagði, að helmingur þessara fulltrúa hefðu verið úr Norður-Múlasýslu. Jeg býst við, að það sje rjett, man að vísu ekki, hve margir þeir voru, en þar munu hafa verið fulltrúar frá 3 hreppum í sýslunni. En 2 af þessum mönnum sátu á sýslufundi Norður-Múlasýslu og samþyktu þar áskorun til bankastjórnarinnar um að setja sem fyrst á stofn útibúið á Austurlandi. Í brjefi frá oddvita sýslunefndar, sem fylgdi áskorun þessari, er það tekið fram, að allir fulltrúar sýslufundarins hafi verið sammála um tillögu þessa og gengið út frá því sem sjálfsögðu, að útibúið yrði sett á Seyðisfirði samkv. því, sem stjórnin hafði ákveðið.

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að langfjölmennasta kauptúnið í Suður-Múlasýslu er Norðfjörður. Þar er líka sjávarútvegurinn mestur og peningaviðskifti mikil. Mjer er kunnugt um það, að Norðfirðingar hafa gert kröfur til, að útibúið yrði sett þar. En jeg veit líka, að verði útibúið ekki á Norðfirði, þá er það vilji þeirra, að það verði á Seyðisfirði, fremur en á Eskifirði eða Reyðarfirði. Þeir eiga miklu oftar leið til Seyðisfjarðar og hægra að sækja þangað en til Eskifjarðar. — Jeg er nefndinni samdóma um það, að fyrst og fremst beri að taka tillit til kröfu almennings, sem útibúið á að nota, og jeg þykist hafa sýnt fram á, að í því efni mælir meira með Seyðisfirði en Eskifirði. En fyrst að hjer virðist um þá tvo staði að ræða, er fróðlegt að bera saman verslunarumsetningu þeirra og skipagöngur, til að sýna viðskiftamuninn. Árið 1913 var verslunarumsetning Seyðisfjarðar 1644300 kr., en verslunarumsetning Eskifjarðar 476300 kr. Á Seyðisfjörð komu árið 1912 26 flutningaskip beint frá útlöndum, samtals 7063 smálestir, en á Eskifjörð 3 skip, 613 smálestir. Á Seyðisfjörð komu það ár enn fremur 174 útlend fiskiskip, 15611 smál., en á Eskifjörð 8 útlend fiskiskip, 429 smál.

Árið 1914 voru á Seyðisfirði seldar 15000 smálestir af kolum, en á Eskifirði er sama sem engin kolaverslun. Kaupmenn á Seyðisfirði hafa keypt mikið af fiski af útlendingum, og selt þeim kol í staðinn, en á Eskifirði er mjer ekki kunnugt um nein viðskifti við útlend skip.

Þessi mismunur virðist mjer svo gífurlegur, að jeg fæ ekki skilið, hvernig hv. þingdeildarmenn geta greitt atkv. með frv. þessu, með þeirri tilætlun, að útibúið eigi fremur heima á Eskifirði en Seyðisfirði. Það skyldi þá vera af velvild til þessa litla frv., sem hv. allsherjarnefnd kallar svo. En vilji hv. deild endilega breyta lögunum, að því er til útibús þessa kemur, og leyfi frv. að ganga til 3. umr., mun jeg þá við 3. umr. bera fram brtt. um að setja útibúið annaðhvort á Seyðisfjörð eða Reyðarfjörð. Á Reyðarfirði kemur það Hjeraðsbúum að bestum notum, en sjávarsveitunum er það hentugast á Seyðisfirði.