30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2644)

50. mál, stofnun landsbanka

Þorleifur Jónsson:

Það er að vísu rjett hjá hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), að ekki liggur fyrir álit frá sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu, um að hún vildi hafa útibú Landsbankans í Suður-Múlasýslu. En þótt svo sje ekki, er mjer þó kunnugt um, að þar er álitið þægilegra að hafa útibúið sem næst sjer, og því eðlilega sem syðst. En þar sem ekki getur verið um það að ræða, að útibúið verði sett á Djúpavog, þá munu menn sætta sig við að fá það annars staðar í Suður-Múlasýslu, t. d. á Eskifjörð eða Reyðarfjörð. Þessir staðir liggja betur við samgöngum að vetrarlagi en Seyðisfjörður. Milli Eskifjarðar og Hóla eru póstgöngur einu sinni í mánuði.

Austur-Skaftfellingar hafa enga ályktun viljað taka í máli þessu, af því að þeir hafa ekki viljað blanda sjer í hreppapólitík Suður-Múlasýslu. En jeg get lýst því yfir, að jeg tel Reyðarfjörð hafa mörg ágæt skilyrði, og með því að setja útibúið þar, er bæði fullnægt Hjeraðsbúum, og þar á meðal nokkrum Norðmýlingum, og svo Sunnmýlingum.

Í Austur-Skaftafellssýslu er sterkur áhugi fyrir því að fá útibúið sem syðst. Í Austur-Skaftafellssýslu er sparisjóður, sem hingað til hefir haft samband við Landsbankann hjer í Reykjavík, og væri það mikil þægindi fyrir hann, að útibúið væri í Suður-Múlasýslu. Þar er svo miklu fljótlegra að ná í peninga hjeðan úr Reykjavík. Yfirleitt verð jeg að álíta það mjög sanngjarnt, eðlilegt og sjálfsagt, að útibúið sje sett í Suður-Múlasýslu, því að jeg sje ekki betur, en að Norðmýlingar sjeu vel birgir með Íslandsbankaútibúið hjá sjer.

Jeg verð að telja rjett og sjálfsagt að þingið ákveði, að útibúið skuli sett í Suður Múlasýslu. En líklega mun rjett, að bankastjórnin ákveði staðinn, og getur þá varla verið um aðra staði að ræða en Eskifjörð eða Reyðarfjörð.