30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

50. mál, stofnun landsbanka

Björn Stefánsson:

Jeg var ekki kominn þegar umræður hófust; jeg kom að í ræðu hv. frsm. (M. G.), og get jeg ekki stilt mig um að þakka honum og nefndinni fyrir tillögur hennar, sem ganga alveg í rjetta átt. Jeg hefi það eitt að athuga við orð hans, að hann sagði, að frv. væri lítið. Þetta sýnir, að hv. frsm. (M. G.) er ekki kunnugur á Austurlandi, þótt hann hafi gert sjer mikið far um að kynna sjer sem best allt þetta mál. En jeg þoli ekki, að frv. sje kallað lítið; frv. er stórt, stórt fyrir sýsluna og stórt fyrir landið. Suður-Múlasýsla var fyrir stríðið tekjumesta lögsagnarumdæmi landsins, næst Reykjavík og Eyjafjarðarsýslu og veitir landssjóði tekjur að sama skapi; þetta byggist að mestu á sjávarútveginum. En fyrst sýslan hefir komist svo hátt bankalaust, þá má nærri geta, hverjar framfarir yrðu þar, ef þau skilyrði væru fyrir hendi, sem kröfur tímans heimta.

Jeg skal ekki fara út í samanburð á sýslunum, að eins geta þess, að röksemdir hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) gætu verið takandi til greina, ef hjer væri um hina fyrstu bankastofnun að ræða austanlands, en þar sem banki er þegar áður kominn á laggirnar á Seyðisfirði, þá er það fjarri allri sanngirni og rjettlæti — auk þess sem það væri illa sjeð fyrir hagsmunum landsbankans — að fara að setja annað útibú á Seyðisfjörð áður en eitt einasta er komið í

S.-M. Slíkt þolir engan samanburð.

Mjer fanst sami hv. þm. (Þorst. J.) eitthvað vera að tala um jarðamat eystra; jeg get nú sagt honum það, að jarðamatið, sem nú fer fram, mun komast að þeirri niðurstöðu, að jarðir í Suður-Múlasýslu sjeu miklu verðmeiri en jarðir í Norður-Múlasýslu, af þeirri ástæðu, ef jeg mætti svo að orði kveða, að sú sýsla er betur sett á hnettinum.

Hv. frsm. (M. G.) vildi láta Austur-Skaftafellssýslu og Norður-Þingeyjarsýslu vega salt. Þetta er ekki rjett, og vona jeg, að hv. þm .N.-Þ. (B. Sv.) sje mjer þar sammála. Fyrir Austur-Skaftfellinga munar það einni póstferð að útibúið sje á Seyðisfirði fram yfir það, að það sje á Eskifirði. En Norður-Þingeyjarsýsla er nær Akureyri en Seyðisfirði og viðskiftaskilyrðin benda öll til Akureyrar. Þess vegna er rjett að strika Norður-Þingeyjarsýslu út, því að hún kemur ekki málinu við, en taka Austur-Skaftafellssýslu með, og munar það miklu fyrir frv.

Hv. þm. Dala. (B. J.) vildi, að Reyðarfjörður yrði ákveðinn í frv., en það finst mjer ekki vel við eigandi. Við þingmenn kjördæmisins getum ekki verið því fylgjandi þvert ofan í sýslufund S.-M. s. l. vor, sem samþ. í einu hljóði kröfu um, að bankaútibúið yrði sett á Eskifirði, og þar með bæði sýslufundarmenn Reyðarfjarðar og Norðfjarðarhrepps. En með því að setja Suður-Múlasýslu í stað Austurlands, þá er spurningin opin, því að allir hreppar hafa sameinað sig um það að gera ekki ákveðnari eða þrengri kröfur en að útiloka Seyðisfjörð og fela bankastjórninni að öðru leyti að ákveða staðinn, og aldrei mundi frv. hafa verið hreyft, ef bankastjórnin hefði ekki þegar áður ákveðið Seyðisfjörð. Við hefðum ekki grunað hana um, að láta sjer detta aðra eins fjarstæðu í hug, ef við hefðum ekki verið búnir að sjá það svart á hvítu.

Sunnmýlingum er vitanlega miklu annara um Landsbankann en Íslandsbanka, en ef landsbankinn svarar svo samúð þeirra, að skáganga þá og lítilsvirða velvild þeirra og rjettlátar kröfur, þá býður hann þeim meira en þeir geta og vilja þola. Ef að Landsbankaútibúið verður sett á Seyðisfirði, þá munu þeir hafa öll sín viðskifti við Íslandsbanka, enda eru þeir ákveðnir í því að biðja hann þá að setja útibú hjá sjer, og bjóða honum það sparisjóðsfje 250000 kr., sem þeir nú hafa á reiðum höndum og hafa boðið Landsbankanum, ef þeir fá útibú hans til sín.