22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (2658)

50. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Það stendur í raun og veru alveg eins á um þetta frv. sem um frv. um stofnun útibús í Árnessýslu. Hjer ræðir um stofnun útibús á greindum stað, Austurlandi. Í bankalögunum frá 1885 er sjerslök áhersla lögð á það, að bankinn setji á stofn útibú svo fljótt sem unt er og þörf krefur á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Nú hafa útibú verið sett á stofn á Ísafirði og Akureyri, en stofnuninni á Seyðisfirði hefir verið frestað. Og í bankalögunum frá 1912 var ákvæðinu í lögunum frá 1885, um stofnun útibús á Seyðisfirði breytt þannig, að ákveðið var að stofna útibú á Austurlandi. Það hefir sem sje verið ágreiningur um það, hvort nauðsynin á útibúi mundi meiri á Seyðisfirði en annarstaðar á austurlandi. Og síðan 1912 hefir bankastjórninni í samráði við landsstjórnina verið frjálst að stofna útibú hvar á Austurlandi, sem best þætti henta.

En í frv. á þingskj. 293 er farið fram á að breyta ákvæðinu frá 1912, og lagt til að útibúið verði stofnað í Suður-Múlasýslu. En með skýrskotun til áðurgreindra laga frá 1912, áleit nefndin þessa breytingu alveg óþarfa og lagði þess vegna til, að málinu væri vísað til stjórnarinnar, því að eftir nefndum lögum hefði bankastjórnin og landsstjórnin heimild til að ákveða í sameiningu, hvar útibúið skyldi stofnað, enda mundi hyggilegast að fela þeim umsjón á þessu.

Skoðanir manna þar eystra eru skiftar um, hvar útibúið skuli vera. Sumir vilja hafa það á Seyðisfirðit aðrir í Suður-Múlasýslu. Báðir geta haft margt til síns máls. En nefndinni þótti ekki sennilegt, að þingmenn gætu skorið rjettlátlega úr þessum ágreiningi með atkvæðagreiðslu. Hún gat þess vegna ekki tekið annað ráð hyggilegra en að leggja það til, að þetta mál sætti sömu meðferð og næsta mál á undan, að því sje vísað til stjórnarinnar til fullnaðarúrskurðar. Og vil jeg því leyfa mjer að óska þess fyrir hönd nefndarinnar, að stjórninni verði falið málið.