22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

50. mál, stofnun landsbanka

Guðmundur Ólafsson:

Hv. frsm. nefndarinnar (K. D.) kvað þetta frv. vera óþarft, af því að það væri heimild til þess í lögum að setja þetta útibú á fót á Austurlandi, og þá eins í Suður-Múlasýslu eins og annarsstaðar. Þetta er alveg rjett. Sami hv. þm. (K. D.) tók líka fram, að það væri ekki heppilegt, að þm. færu að skera úr því, hvar útibúið skyldi sett. Jeg get fallist á hvorttveggja, en skal samt benda á, að þingið hefir áður gert þetta, svo að fult samræmi er í því, að þingið haldi áfram að gera það.

Fyrst var það ákveðið, að útibúið skyldi sett á stofn á Seyðisfirði, en svo var þessu breytt 1912. Þá hefir einhver vafi verið um það, líklega hjá þinginu, hvort það væri víst, að Seyðisfjörður væri heppilegasti staðurinn. Mjer skilst það svo, þegar sett er á Austurlandi í staðinn fyrir á Seyðisfirði. Og nú er aftur farið fram á, að fyrir „á Austurlandi“ komi „í Suður-Múlasýslu“. Það hefir því ekkert gengið á þessum 30 árum, annað en að ákvæðið hefir verið fært úr stað, hvar útibúið skyldi standa, en ekki er það komið á stofn enn þá. Já, það er náttúrlega ganglítið, en nú, eftir ræðu hæstv. forseta deildarinnar, gæti það komið til mála, að þingið færi að fjölga stöðunum.

Jeg get mjög vel fallist á þau ummæli hans, að útibúum ætti að koma upp á sem flestum stöðum, víðar en á einum stað í hverjum landsfjórðungi. En öðru máli er að gegna um það, þegar hann sagði, að sparisjóðirnir hefðu vaxið upp í reiðuleysi og eftirlitsleysi; þeim ummælum mótmæli jeg sem órjettmætum. Jeg býst við, að hann hafi meint það, að þeir hafi ekki vaxið upp undir eftirliti þings og stjórnar, og það sagði hann reyndar síðar í ræðu sinni. Enn fremur sagði hann, að þeir menn, sem hefðu tekið að sjer að stjórna þessum sjóðum, hefðu sýnt það, að þeir hefðu verið nýtir menn, enda benti hann á það, að sjóðirnir hefðu tapað mjög litlu fje.

Jeg get, satt að segja, eins og jeg tók fram í byrjun ræðu minnar, ekki sjeð, að það sje viðkunnanlegt, að þingið sje altaf að breyta til um það, hvar þetta margráðgerða útibú skuli standa, ákveði á þessu þingi þennan staðinn og á næsta þingi aftur annan stað. Mjer finst aftur á móti, að það sæti ekki illa á þinginu að láta einhver ummæli fylgja um það til stjórnarinnar, að þetta útibú væri sett á sem heppilegastan stað, ganga ekki alveg eins tómlátlega frá því og háttv. nefnd hefir gert, því að mjer þykir það ekki trúlegt að svo stöddu, að reist verði nema eitt útibú á Austfjörðum. Jeg tók reyndar svo eftir ræðu hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), sem þetta væri þegar búið að ákveða, — að útibúið skyldi setja á Seyðisfirði. Ef það er, þýðir auðvitað lítið að láta þessi ummæli fylgja, en hv. flm. frv. hafa víst gert ráð fyrir, að ekki væri svo fast frá því gengið, að ekki mætti breyta því.

Jeg vil því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá, sem jeg — með leyfi hæstv. forseta — skal lesa upp:

„Í því trausti, að landsstjórn og bankastjórn skipi þessu. máli sanngjarnlega og taki fult tillit til landshátta á Austurlandi, viðskiftamagns og viðskiftaþarfar almennings, einkum í þeim hjeruðum, sem erfiðust eiga bankaviðskifti nú, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Með þessari dagskrá er þó óskað eftir því, að stjórnin taki sem best tillit til þess, hvar þörfin á útbúinu sje mest.