22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

50. mál, stofnun landsbanka

Eggert Pálsson:

Út af ummælum hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) vil jeg leyfa mjer að segja nokkur orð. Honum fanst kenna hringlandaskapar hjá þinginu, ef farið væri að samþykkja frv. það, sem hjer er um að ræða.

Í lögunum frá 18. sept. 1885 er svo ákveðið, að bankinn skuli, þegar nauðsyn beri til, setja upp aukabanka á Seyðisfirði. Hv. þm. (Jóh. Jóh.) talar um, að svo hafi þingið aftur seinna breytt þessu, og í staðinn fyrir ákvæðið „á Seyðisfirði“ sett „á Austfjörðum“, og loks sje í þessu frv. farið fram á að setja inn ákvæðið „í Suður-Múlasýslu“. En þetta er ekkert hringl, þvert á móti. Þarna er altaf verið að stíga sporið lengra og lengra í sömu átt. Það er sýnilegt, þegar þingið ákveður, að útibúið skuli sett á Austfjörðum, en ekki á Seyðisfirði, að þá er vöknuð sú skoðun hjá þinginu, að heppilegra sje, að útibúið verði reist á öðrum stað en Seyðisfirði. Og nú virðist hv. Nd., að heppilegasti staðurinn fyrir útibúið sje í Suður-Múlasýslu. Það er, með öðrum orðum, smátt og smátt verið að færa sig frá því upprunalega, og það telur hv. þm. (Jóh. Jóh.) hringlandaskap. En slíkt er mjer með öllu óskiljanlegt af honum, svo skýrum manni, að hann skuli hafa svo hausavíxl á hlutunum.

Það, að svo var til ætlast í upphafi, árið 1885, að útibúið skyldi sett á Seyðisfirði, stafar vitanlega af því, að þá var Seyðisfjörður stærsta plássið á Austurlandi, og meira að segja í miklum uppgangi, og enn fremur af hinu, að þá var engin peningastofnun til á Austurlandi, ekki frekar á Seyðisfirði en annarsstaðar. Svo þegar þingið seinna ákveður, að útibúið — þegar það verði stofnað — skuli vera á Austfjörðum, þá er farið að halla fyrir Seyðisfirði, og jafnframt er svo komið, að Íslandsbanki setji þar upp útibú. Þetta er því ekki að kenna neinum hringlandaskap, heldur breyttum kringumstæðum, sem þingið vill sjá og viðurkenna. Það getur vel verið, að þörfin fyrir útibú sje rík á Seyðisfirði, en þess verður þá að geta, að þar er bankaútibú fyrir og sýnist því minni þörf á að setja upp annað til við hliðina á því, heldur en í Suður-Múlasýslu, þar sem ekkert er fyrir, en peningaþörfin vegna útgerðar sennilega meiri eða fult svo mikil. Svo má líka benda á það, að þótt útibú þetta yrði fyrst stofnað í Suður-Múlasýslu, þá mætti líklega koma því í verk síðar að stofna annað til, frá Landsbankanum, á Seyðisfirði. En ef fyrra útibúið yrði stofnað á Seyðisfirði, þætti mjer líklegt, að það drægist miklu lengur, að annað til viðbótar yrði stofnað í Suður-Múlasýslu.

Jeg verð því að hallast að þeirri tillögu, að útibú það, sem hjer um ræðir, verði stofnað í Suður-Múlasýslu. — Hins vegar get jeg, með því að mjer virðist dagskráin, sem hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) bar fram, stefna frekar í þessa átt, greitt atkvæði með henni.