22.08.1917
Efri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

50. mál, stofnun landsbanka

Sigurður Eggers:

Jeg vil leyfa mjer að gera með örfáum orðum grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) talaði um það, að þingið mætti ekki hringla í þessu útibúsmáli. Jeg er algerlega sammála hv. 1. þm. Rang. (E. P.) um það, að framkoma þingsins í því máli bendi alls ekki á neinn hringlandahátt. Þingið hefir þvert á móti sjeð, að ákvæðið um, að útibúið skyldi vera á Seyðisfirði, var ekki sem heppilegast, og breytti því svo og setti Austurland í staðinn. Nú hefir hv. neðri deild stigið enn lengra í sömu átt og samþykt, að þetta væntanlega útibú skuli verða í Suður-Múlasýslu. Það er ekki óeðlilegt, að þingið taki nokkuð mismunandi afstöðu, eftir því sem árin líða, til slíks máls. Mestu hlýtur ávalt að ráða, hvar viðskiftaþörfin er ríkust í hvert sinn. Nú skilst mjer sem talsverðar fiskveiðar sjeu stundaðar í Suður-Múlasýslu og miklu meiri en á Seyðisfirði. Auk þess er þess að gæta, að bankaútibú er þegar fyrir á Seyðisfirði en ekkert í Suður-Múlasýslu. Virðist því öll sanngirni mæla með því, að Suður-Múlasýsla gangi nú fyrir. Jeg get verið alveg sammála hæstv. forseta um, að þörfin sje víða mikil á bankaútibúum, en nú liggur ekki annað fyrir þessari hv. deild en að ákveða, hvar þetta eina útibú skuli vera. Og þá getur mjer ekki dulist, að það eigi að vera í Suður-Múlasýslu, ef fara á eftir því, hvar viðskiftaþörfin er mest. Og mjer virðist stjórnin nú þegar vera búin að fá svo miklar bendingar um þetta mál, að henni ætti ekki að geta komið til hugar að setja það annarsstaðar. Það er alveg rjett hjá hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.), að frv. þetta var ekki samþ. með fleirum en 13 atkv. í hv. neðri deild, en sá atkvæðafjöldi er líka meiri hluti í deildinni, eins, og hún er nú skipuð, því að þar eru nú að eins 25 þingmenn, eins og öllum er kunnugt. Þingviljinn hefir því komið greinilega í ljós. Að öðru leyti get jeg vel fallist á dagskrártillögu hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), því að jeg býst við, að hún sje borin fram með þeim skilningi, að útibúið sje best komið í Suður-Múlasýslu.