17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

51. mál, forðagæsla

Flm. (Einar Jónsson):

Þetta er stutt frv. og þarf ekki mikilla skýringa. Jeg lít svo á, að þegar þinginu vill það óhapp til að semja lög, sem ekki koma að tilætluðum notum, þá beri því að ráða sem fyrst bót á skammsýni sinni, með því að laga lögin eða nema þau úr gildi, ef þau reynast allsendis ónóg eða ófullkomin. En það mun óhætt að fullyrða, að svo hafi lög þau reynst, sem hjer er farið fram á að afnema. Þannig litu þingmenn að minsta kosti á, á þingi 1915, þótt það yrði ofan á að fela stjórninni að leita álits allra hreppsnefnda um forðagæslumálið, í stað þess að nema forðagæslulögin úr gildi þá þegar. Hvers vegna stjórnin hefir stungið málinu undir stól er mjer ekki kunnugt, en vildi gjarnan fá að heyra ástæður fyrir því nú. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki, að neitt sje verið að lappa við ómöguleg lög og jeg álít, að ekki yrði lappað neitt upp á þessi lög, nema með miklum kostnaði og tímatöf, og engar líkur til, að þær breytingar kæmu að nokkru haldi. Meðan forðagæslumennirnir hafa jafnlítið vald og lögin gera ráð fyrir, eru þeir með öllu gagnslausir. En yrði farið að breyta lögunum þannig, að vald forðagæslumanna væri aukið, þá mundi enginn almennilegur maður fást til að taka þann starfa að sjer. Það mundi að minsta kosti verða mjög óvinsælt verk. Þannig hefir því verið varið, og mun lengst af verða, að hver vill vera frjáls og sjálfráður um það, á hvern hátt hann sjer skepnum sínum farborða.

Starf forðagæslumanna er líka flókið og vandasamt. Þeir geta ekki farið eftir öðru, við ásetning sinn fyrri hluta vetrar, en framtali bænda á heyi og fjenaði. En það vita allir, sem skyn bera á þessi mál, að stundum getur verið valt að byggja á framtalinu. Kunnugir menn geta að vísu oft farið nærri um skepnufjöldann. En meira vandhæfi er á að fara eftir framtali á heyi, því að bæði eru menn misjafnlega nákvæmir með að segja til heyskapar síns, og kaplarnir eiga ekki saman nema að nafninu.

Jeg held ekki, að hægt verði að telja mjer trú um annað en að best sje að afnema lögin með öllu. Jeg hefi heyrt því haldið fram, að sá eða þeir, sem fella vilja forðagæslulögin úr gildi, sjeu skyldir að koma með annað í staðinn, en jeg er því ekki samþykkur. Að vísu hefði jeg góða trú á, að hreppsnefndir settu reglur um forðagæslu, hver í sínum hreppi. Sumstaðar gæti verið gagnlegt að gera samþyktir fyrir stærri hjeruð. En slíkar samþyktir má gera án alls kostnaðar og án tímatafar hjer í þingsalnum. Til þess þarf engin forðagæslulög. Ástæður mínar fyrir frv. þessu geta menn lesið á þgskj. 53. Þær eru, að jeg hygg, svo ljósar, að hin hv. deild ætti að geta afgreitt málið án mikillar fyrirhafnar. Jeg geri samt ráð fyrir meiri umræðum um forðagæslumálið, þar sem næsta mál á dagskrá er frv. til nýrra forðagæslulaga. — Jeg hafði ekki hugsað mjer, að frv. mínu yrði vísað til nefndar. Finst mjer málið svo einfalt, að hægt sje að vísa því til 2. umr. umsvifalaust. En ef þörf þykir að vísa því til nefndar, á það að sjálfsögðu heima í landbúnaðarnefnd. Mundi jeg ekki vera því mótfallinn, að frv. væri vísað til þeirrar nefndar, en geri það ekki að minni tillögu. Tel jeg engum manni, er landbúnað þekkir á annað borð, ofvaxið að greiða atkvæði um málið, eins og það liggur fyrir. Sjávarmenn tel jeg varla bæra til að greiða atkvæði í þessu máli, þar sem það liggur svo fjærri þeim, að þekking þeirra á því hlýtur að vera af skornum skamti.