17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

51. mál, forðagæsla

Bjarni Jónsson:

Mjer finst nú meiri þörf á öðru en því að afnema lög, sem styðja eiga aðhald og eftirlit í landinu. Eins og öllum er kunnugt er útlitið alt annað en glæsilegt. Líklegt er, að verslun með fje eða hesta verði lítil eða engin á komandi hausti. Fyrir því verður meiri freisting fyrir bændur nú en nokkru sinni áður að setja djarft á fóður. Væri því ástæða til að auka vald forðagæslumanna að mun, í stað þess að afnema alt eftirlit. Með því móti mætti ef til vill koma í veg fyrir óviturlega ásetningu, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar. — Það væri bæði leitt og óviturlegt, ef það bættist ofan á hallæri og aðrar þrengingar, að bændur feldu bústofn sinn fyrir fóðurskort. Hættan eykst enn fremur við það, að grasspretta mun víðast vera slæm og fólksekla líkleg í sumum sveitum, svo að gera má ráð fyrir að heyskapur verði rýr í sumar. — Jeg tel því ekki ráðlegt að samþykkja frv. það, sem hjer liggur fyrir. En sökum þess mikla áhuga, sem hv. flm., hinn mikli þingmaður frænda minna í Rangárvallasýslu (E. J.), hefir sýnt, við framsögu þessa máls, vil jeg ekki, að frv. verði skorið niður nú þegar. Legg jeg því til, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar. Man jeg ekki til, að jeg hafi heyrt, hvernig sá svanur syngur, síðan á þinginu í vetur, Finst mjer því vel við eiga að gefa háttv. nefndarmönnum færi á að beita nú aftur þeirri englarödd, sem drottinn hefir gefið þeim.