17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

51. mál, forðagæsla

Magnús Guðmundsson:

Á því leikur varla nokkur vafi, að forðagæslumálið sje stærsta mál landbúnaðarins. Um það hlýtur öllum að bera saman. Mjer þykir því undarlegt, að fram er komið frv. um að afnema forðagæslulögin með öllu. Það frv. ætti að fella nú þegar. Jeg sje enga ástæðu til að vísa því til nefndar eða að sjóða neitt upp úr því, þar sem fram er komið frv. til nýrra forðagæslulaga. (Sv. Ó: Það frv. er um annað efni). Nei, það er um forðagæslu. Þótt óheppilega hafi tekist til með val forðagæslumanna í ýmsum hreppum, þá er það engin ástæða til að fella úr gildi öll forðagæslulög. Frv. það, sem er næsta mál á dagskrá, á að ráða bót á þeim agnúa, og ætti því hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að styðja það. En frv. það, sem hjer liggur fyrir, legg jeg til að verði felt nú þegar.