17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (2675)

51. mál, forðagæsla

Einar Arnórsson:

Hv. samþingismaður minn, 1. þm. Árn. (S. S.), bar fram fyrirspurn, er snertir mig, um hvað stjórnin hafi gert viðvíkjandi þingsályktunartillögu um forðagæslumálið, sem var samþykt á síðasta reglulega Alþingi. Mjer er ekki skylt að svara nú þegar, en skal þó reyna að gera það. Og þar sem fyrirspurnin kemur svona að óvörum, verður spyrjandi að sætta sig við þó að svarið verði ekki jafnrækilegt og ella hefði orðið.

Svarið er í sem stystu máli þetta. Jeg man ekki til, að neitt hafi verið gert í minni tíð í máli þessu. Það hefir verið nefnt hjer í deildinni áður, að ástæðan til, að þingið vísi málum til stjórnarinnar, sje oft sú, að þingið vilji losa sig við þau á sæmilega hneisulítinn hátt eða treysti sjer ekki við þau að eiga. Þetta er vitanlega laukrjett; það eru mörg dæmi til þess, að þingið bjargi sjer á þennan hátt, þegar það kemst í bobba. Stundum getur þetta verið rjettmætt, en oft er það „humbug“. Jeg skal ekkert um segja, hver tilgangurinn hafi verið 1915, en næst er mjer að halda, að þingið hafi ekkert viljað við málið eiga, og þó fyrirorðið sig fyrir að skilja við það í algerðu reiðuleysi. En mjer virtist tillagan svo ómöguleg, að ekki væri „púkkandi“ upp á hana. Hugsið þið ykkur það starf að skrifa öllum hreppsnefndum á landinu og krefja þær sagna. Þær munu ekki yera færri en um 200. Eftir reynslu minni að dæma myndu svör ekki hafa komið frá fleirum en helmingnum, og búast mátti við, að mörg þeirra yrðu mesta endileysa. Og hvernig ætli hefði verið að vinna úr þessu öllu? Kann ske Búnaðarfjelagið hefði viljað hjálpa til þess? Jeg myndi að minsta kosti hafa leitt minn hest frá því.

Enn er eftir ein ástæðan til þess, að jeg taldi ekki þörf á að taka tillit til þingsályktunartillögunnar; hún er sú, að það er mín skoðun, að forðagæslulögin eigi að standa. Þar með er ekki sagt, að þau þurfi ekki einhverra endurbóta við. Menn, sem hafa enn meiri þekkingu og betri skilyrði en hreppsnefndirnar yfirleitt, hefðu átt að finna hvöt hjá sjer til að bæta úr göllunum, sem eru á forðagæslulögunum, ekki síst ef þeir auk þess sitja á þingi. Þá ber nokkuð meiri skylda til að ráða fram úr þessu máli en hreppsnefndunum, því að ekki eru þær skyldar til að svara.

Viðvíkjandi þessu máli, er hjer liggur fyrir, vil jeg geta þess, að jeg gæti illa felt mig við, að farið væri að nema forðagæslulögin úr gildi, nú einmitt á þessum tímum. Nær lægi að reyna eitthvað að endurbæta þau. Það er hart, að í landi, þar sem vitanlegt er að hefir verið horfellir í um 1000 ár, skuli heyrast raddir um, að ekkert skuli gert til að sporna við honum. Sagan sýnir, svo að ekki verður í móti mælt, að horfellir hefir verið hjer landlægur alt frá landnámstíð. Hitt er annað mál, hvernig á að bæta úr; jeg geng út frá, að töluverðir gallar sjeu á þeim lögum, er nú gilda um forðagæslu. 1914 kom á þingi tillaga um að gefa forðagæslumönnum meira vald til að ráða bót á því, sem þeim fyndist ábótavant, en hún náði ekki fram að ganga. En jeg býst við, að það væri ekki lítils virði, ef forðagæslumenn fengju heimild í þá átt.

Það hefir ekki gert lítið til að spilla því að forðagæslan gæti orðið að gagni, að í mörgum hreppum hafa menn verið á móti lögunum og látið undir höfuð leggjast að kjósa forðagæslumenn. Það er og farið sneypulega með forðagæslumennina; svo er ákveðið, að þeir skuli hafa „alt að 2 kr. á dag“ í ómakslaun. Slíkt smánarboð ætti ekki að sjást í lögum. Sæmilegra væri, að mennirnir ynnu starfið endurgjaldslaust.

Nú er svari mínu lokið. Jeg býst kann ske við, að hv. samþingismaður minn (S.S.) sje óánægður með það og reiðist mjer ef til vill, fyrir hönd landbúnaðarnefndar 1915.