17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

51. mál, forðagæsla

Sigurður Sigurðsson:

Það var rjett, sem hv. samþingismaður minn (E. A.) bjóst við, að jeg myndi ekki vera ánægður með svar hans. Jeg hefði sætt mig við það, að hann hefði kent annríki um vanrækslu stjórnarinnar í þessu efni. En ástæðurnar, sem hann kom með, voru hvorki til virðingar þinginu, deildinni, hreppsnefndunum nje hv. þingmanninum sjálfum.

Hann sagði, að þingsályktunartillagan væri vitlaus. Án þess að jeg vilji feðra krakka, sem enginn vill kannast við, skal jeg skýra frá, hvernig till. er til orðin. Hún er samin af manni, sem er prófessor við Háskóla Íslands. (E. A.: Nei, jeg hefi ekki samið hana). Það sagði jeg ekki heldur.

Jeg kann ekki við, að stjórn landsins sje líkt við kirkjugarð, sem alt óhreint sje jarðað í, eða ruslakistu, sem öllum ræksnum sje kastað í. (B. K.: Svo er það þó). Jeg veit ekki betur en að það sje rangt, að málum sje vísað til stjórnarinnar af þeim ástæðum, er hv. 2. þm. Árn. (E. A.) nefndi. Þeim málum er vísað til stjórnarinnar, sem ekki er tími til að afgreiða á þingi, og þingið treystir því, að stjórnin ráði fram úr þeim og undirbúi undir næsta þing. Vanræksla af hendi stjórnarinnar er ófyrirgefanleg.

Jeg skal ekki fara að verja hreppsnefndirnar af neinu kappi, en því vil jeg bera á móti, að ekkert myndi hafa orðið á svörum þeirra að græða. Jeg man, að þegar Torfi í Ólafsdal samdi frumvarp sitt um forðagæslu og heyásetning, þá sendi hann það til álita til hreppsnefndanna, og æskti álits þeirra um málið. Svör komu frá nokkrum, og þau voru öll góð og greinileg og mikið á þeim að græða. Á því byggi jeg þá skoðun mína, að svör hreppsnefnda hefðu orðið svo úr garði gerð, að auðvelt hefði verið að vinna úr þeim.

En jeg skal ekki karpa út úr þessu lengur. Það er komið sem komið er. Stjórnin hefir vanrækt það, sem þingið 1915 fal henni. En því verð jeg þó að bæta við, að það frv., er nú liggur fyrir, bætir ekki úr skák.