17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

51. mál, forðagæsla

Einar Arnórsson:

Út af refsiræðu hv. 1. þm. Árn. (S. S.) vil jeg leyfa mjer að koma með nokkrar athugasemdir. (S. S.: Það var engin refsiræða). Það getur verið, að þm. viti ekki, hvað refsiræða er. Honum þótti það grálega mælt, að jeg dró í efa, að hreppsn. myndu hafa svarað. Hann nefndi, sínu máli til sönnunar, að Torfi í Ólafsdal eða Búnaðarfjelagið hafi fengið svar frá að eins nokkrum þeirra, þegar hann spurði þær allar. Þessa sönnun ætla jeg ekki að fara að leggja á höggstokkinn. Í brunabótalögum Íslands er ákvæði um, að leita skuli til sveitarstjórna viðvíkjandi reglugerð brunabótafjelagsins. Það eru 16—17 sveitarstjórnir, sem þetta mál skiftir. Í fyrra voru sveitarstjórnunum sendar spurningar. Svörin komu öll að lokum, en menn geta gáð að því, ef þeir vilja, hve miklu var eytt í símskeyti og annan eftirrekstur, áður en þau fengust. En hvað var svo á þeim að græða? Á sumum lítið, og sumum ekkert. Jeg hefði gaman af að sjá hv. 1. þm. Árn. (S. S.) settan í að vinna úr 200 hreppsnefndarálitum. Jeg býst við, að hann hefði lítinn tíma umfram til velviljaðra ráðlegginga það árið, og má guð vita, hver spjöll það yrðu öllum framkvæmdum á landsbúinu.

Hreppsnefndirnar hafa líka nóg af leiðinlegum störfum með höndum. Jeg skil vel, að þeim sje sárt um tímann, og vilji ekki láta reka sig út í hvað sem er.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gerði þó eina tilraun til að rjettlæta þingsályktunartillöguna frá þinginu 1915, að segja, að hún væri samin af prófessor við Háskóla Íslands. Jeg fæ ekki sjeð, að hún sje betri eða verri fyrir það. (S. S.: Tillagan er góð). Það er ekki á sjerfræðisviði þess prófessors, sem við er átt, að semja þingsályktunartillögur um landbúnað. En hv. 1. þm. Árn. (S. S.) var í nefndinni líka, svo að hann mun eiga sinn þátt í tillögunni. Nú er það svo í náttúrunnar ríki, að flestar sæmilegar skepnur halda upp á afkvæmi sín. Það er því að vonum, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) finnist sín eigin tillaga góð. Jeg skal líka fallast á, að honum sjálfum þyki hún góð. Viðvíkjandi þessari áminningarræðu þingmannsins vil jeg geta þess, að ekki er nema gott og eðlilegt, að menn sjeu strangir við aðra.

Jeg hjelt, að 1. þm. Árn. (S. S.), sem hefir setið á þingi í mörg ár, væri orðið ljóst það, sem er jafnalkunnugt og það, að málum sje vísað til stjórnarinnar, þegar þingið ræður ekki við þau, og vill losna við þau tiltölulega vanvirðulítið. (S. S.: Þetta er góð afsökun fyrir stjórnirnar).

Jeg ætla að standa við alt, sem jég sagði í fyrra skiftið, og tek ekki aftur neitt af því. (S. S.: Jeg bjóst svo sem ekki við því). Ef út í það er farið, má geta þess, að margar aðfinslur mætti fram færa út af starfsemi 1. þm. Árn. (S. S.) í almenningsþarfir, sem eru rjettmætari en þessi ásökun hans, en jeg sleppi því að þessu sinni.

Jeg ætla ekki að eyða fleirum orðum um þetta mál. Vilji samþingismaður minn

(S. S.) standa upp einu sinni enn, er honum það velkomið. Jeg svara ekki oftar. (S. S.: Jeg er dauður).