17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

51. mál, forðagæsla

Stefán Stefánsson:

Jeg býst ekki við, að frv. þetta gangi fram, enda teldi jeg það illa farið. Jeg tel líka illa farið, að tilefni skuli vera til að koma með slíkt frv. sem þetta. Því að jeg er sannfærður um, að forðagæslulögin gera gagn, og það því meira gagn sem þeirra er vandlegar gætt, eða betur framfylgt, og sjerstaklega þykir mjer nú óhentugur tími til að fara að nema lögin úr gildi, því að það er öllum auðsætt, hve afarmikil nauðsyn er á, að þessum lögum sje hlýtt einmitt nú. Annars má ekki láta það ómótmælt, sem sagt hefir verið um það, að forðagæslumenn hefðu ekkert vald. Jeg sje ekki betur en að þeir hafi fult vald til að hlutast til um, að keypt verði fóður handa búpeningi, hvort sem eigendur vilja eða ekki, þar sem það er skýrt tekið fram, að fari búendur ekki að ráðum forðagæslumanns, þá skuli hann tilkynna það hreppstjóra, sem svo getur skipað búendum að afla sjer tiltekinna, nægilegra fóðurbirgða, sje þess nokkur kostur; og sje þessu sem öðru í lögunum ekki fullnægt, þá liggur við 5 til 100 króna sekt, „nema hærri hegning sje ákveðin í almennum lögum.“ Ef þetta er ekki nægilegt vald, þá veit jeg ekki, hvaða valdi á að beita. Jeg álít, að hjer sje farin svo skynsamleg leið, að vart sje til önnur heppilegri.

Ef unglingar eru kosnir til að skoða heybirgðir, sem ekkert skyn bera á slíkt, þá sýnir það ekki annað en það, að hreppsbúar sjeu andvígir lögunum, og er það óneitanlega dálítið undarlegt, þar sem hjer er að eins um það eitt að gera, að forðagæslumenn gefi sem nákvæmasta bendingu um það, hvort bændur hafi nóg fóður handa fjenaði sínum, og að fóðurbætir eða fóðurauki sje þá keyptur, ef á þarf að halda. Þar, sem jeg þekki best til, hafa þeir menn sveitarinnar verið valdir til þessa ár eftir ár, sem viðurkendir eru að bera glegst skyn á meðferð á skepnum og fóðurbirgðum, enda hefir þeim alstaðar verið tekið með ánægju. Enda er það oft svo, þegar fannkyngi er og illviðri ganga á útmánuðum, að bændur verða hálfsmeikir um birgðirnar, og þykir þá vænt um komu skoðunarmannanna.

En svo er líka eitt enn. Lögin auka metnað hjá bændum. Skýrslurnar um fóðurbirgðir bænda og meðferð þeirra á búfje eru lesnar upp í allra áheyrn á hreppaskilum. (E. J.: Skýrslurnar eru ekki lesnar upp). Það er skylda að lesa þær upp, og því algerð vanræksla, sje það ekki gert. Sem sagt þykir mjer það leitt, að vinur minn, hv. 2. þm. Rang. (E. J.) skuli hafa orðið til að flytja slíkt frv. sem þetta, en jeg þykist vita, að það sje því að kenna, að ástandið sje þannig í hans sveit, að menn sjeu yfirleitt óánægðir með lögin, og hann hafi því fremur flutt þetta frv. eftir ósk kjósenda sinna en að honum sjálfum sje það alvörumál, eða að hann álíti lögin óþörf og gagnslaus.