18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Þorsteinn Jónsson:

Tilefni þessa frv. er það, að mikill þorri manna í Hróarstunguhjeraði hefir óskað eftir, að því yrði skift í 2 læknishjeruð, af þeim ástæðum, er hv. 1. þm N.-M. (J. J.) hefir tekið fram. Læknisbústaðurinn var fluttur til Borgarfjarðar af því, að læknirinn vildi heldur vera þar og bjóst við meiri aukatekjum þar. Læknishjeraðið er gríðarvíðáttumikið og erfitt yfirferðar. Eftir því renna þrjár stórár, Jökulsá, Lagarfljót og Selfljót. Þar að auki er því skift sundur með fjallgarði, er skilur Borgarfjarðarhrepp frá Hjeraðinu, og auk þess verða þeir menn, sem búa í svokölluðum Víkum, sunnan við Borgarfjörð, að sækja yfir fjallgarða.

Við flutningsmenn sáum, eftir að frv. var frá okkur farið, að okkur hafði yfirsjest að taka það fram, að óhjákvæmilegt verður að veita núverandi lækni í Hróarstunguhjeraði launauppbót fyrir þann aukatekjumissi, er hann verður fyrir við skiftinguna. Nái skiftingin ekki fram að ganga, gæti komið til mála að breyta takmörkum hjeraðsins, þannig að það minkaði. Nokkuð mætti leggja undir Vopnafjarðarlæknishjerað og nokkuð undir Fljótsdalslæknishjerað.

Annars er það víða úti um land, að almenningur óskar eftir, að læknishjeruðum sje fjölgað, og því er það ekki rjett stefna, sem hefir ráðið hjer í þinginu, að takmarka svo mjög þessa fjölgun. Jeg held, að það sje einróma ósk þjóðarinnar, að læknishjeruðum sje fjölgað, svo að allur almenningur geti notið læknishjálpar. Læknarnir eru þeir embættismenn, er þjóðin vill helst hafa og helst borga.