25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Jón Jónsson:

Jeg sje, að nefndin hefir fundið til þess, að talsverð vandkvæði voru á fyrirkomulaginu, eins og það er nú, á læknaskipuninni fyrir austan, en samt hefir hún ekki sjeð sjer fært að samþykkja frv. og ekki heldur reynt á nokkurn framkvæmanlegan hátt að bæta úr þeim göllum, sem nú eru á.

Jeg verð að segja, að þetta nefndarálit sem hún hefir gefið út, er ekki mikils virði. Nefndin leggur það til, að bústaður læknisins sje fluttur utar í hjeraðið. Það er nú hægra sagt en gert. Læknirinn, sem nú er þarna, hefir búið vel um sig á jörðunni, og það myndi ekki mælast vel fyrir að skylda hann til að taka sig upp þaðan og flytja eitthvað annað. Jeg held tæplega, að það yrði samþykt á sýslufundi að skylda hann til þess, því að eitthvert tillit verður þó að taka til læknisins. En segjum nú sem svo, að þetta verði gert, þegar næst verða læknaskifti. En þrátt fyrir það yrði ekki bætt úr vandkvæðunum. Það er nokkuð erfitt að hafa alt Fljótsdalshjerað með Jökuldal eitt læknishjerað. Yfir höfuð hygg jeg, að ekki sje mögulegt að bæta úr þessu, nema með því að skifta Hróarstunguhjeraði í tvent, því að jeg sje ekki, að tillögur nefndarinnar um að stjórn og hjeraðsbúar undirbúi málið, sjeu á nokkurn hátt framkvæmanlegar, því að hvernig er hægt að ætlast til, að hjeraðsbúar fari að kaupa jörð og byggja nýtt sjúkraskýli, án þess að þeir hefðu nokkra vissu um það, hvern veg þingið mundi taka í málið? Og auðvitað gegnir sama máli um stjórnina. Hún getur ekki undirbúið málið neitt, enda er það nú af mörgum talið sama og að jarðsetja málin að vísa þeim til stjórnarinnar.