23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Pjetur Jónsson:

Mjer virðist hæstv. stjórn taka sjer helst til nærri það, sem henni ber á milli og nefndinni, og vildi jeg fara um það fáum orðum.

Nefndin segir svo í áliti sínu: »Virtist henni stjórnin hafa farið oflangt í tilraunum sínum til að gera frumvarpið tekjuhallalaust, þar sem sú viðleitni kom víða niður á útgjaldaliðum, sem engin tök voru á að spara til. En að setja sjálfsagða útgjaldaliði oflága eða sleppa óhjákvæmilegum útgjaldaliðum úr frumvarpinu, leiðir ekki til annars en að villa mönnum sýn á fjárhagsástandinu og varna þeim fullkomins yfirlits.« Þetta er alveg hreinskilnislega sagt, eins og nefndin meinti það. Henni bar á milli við stjórnina eðlilega af því, að hún stóð á nokkuð annari sjónarhæð en stjórnin, þegar hún samdi frumvarp sitt. Tímar hafa breyst síðan og útsýnið með. Jeg neita því ekki, að nefndin muni hafa litið nokkuð öðru augum en stjórnin á það, hvernig fjárhagsáætlunina ætti að semja, og ekki dylst það, að væri þeim orðum, sem jeg hafði upp úr nefndarálitinu, eingöngu beint til stjórnarinnar, þá mætti ekki eingöngu skoða þau sem ávítur til hennar, heldur beinlínis sem skammir. En nefndarmenn undirskrifuðu þau alls eigi með það fyrir augum, að þau ættu að skiljast á þann veg.

Af því að það er ekki útskýrt í nefndarálitinu, hvers vegna nefndin hagaði orðum sem hún gerði, þykir mjer rjett að gera grein fyrir því nú. Nefndin sá það brátt, að henni var ekki unt að halda frv. tekjuhallalausu, og það ekki þótt hún hefði enga nýja liði tekið upp í fjárlögin, umfram þá, sem voru í stjórnarfrv., en nú hefir hún þar að auki, eins og sjá má af brtt. hennar, bætt nokkru við, sjálfsagt sumu af því, að hún stóð á öðru sjónarsviði en stjórnin og hafði í höndum upplýsingar, sem stjórnin hafði ekki haft. Fór svo, að nú, þegar nefndin skilar frá sjer fjárlagafrv., gerir hún ráð fyrir miklum tekjuhalla. Til þess nú að verja sig fyrir ákúrum fyrir að hafa búið til þennan tekjuhalla, þá vildi hún taka það fram, að það væri ekki til annars en að blekkja þingið og villa því sýn, ef nefndin hefði verið að streitast við að halda frv. tekjuhallalausu eða tekjuhallalitlu, með því að setja útgjaldaliðina svo og svo lága. Það er því rjettara að taka orðin sem bendingu til deildarinnar um að blekkja ekki sjálfa sig, heldur en sem ákúrur til stjórnarinnar.

Það hefir um langt skeið verið stefna stjórnarinnar og fjárlaganefndar að áætla tekjurnar gætilega og ekki ofháar. Hins vegar hefir fjárlaganefndinni oft hætt við að áætla útgjöldin í lægsta lagi, móts við það, sem þau hlutu að reynast, og stundum klipið þar af sanngjarnri áætlun stjórnarinnar. Þess vegna hafa líka umframgreiðslur oft orðið mjög miklar. Þetta getur hafa haft þau áhrif á stjórnina, að hún hafi smátt og smátt farið að hafa áætlaða gjaldaliði í frv. sínu sem lægsta, til þess að fá tekjur og gjöld til að standast sem mest á. Slíkt er auðsjáanlega enginn sparnaður, og veldur einungis misræmi á milli landsreikningsins og fjárlaga og villir fjárhagsyfirlitið.

Það er þessi stefna, sem nefndin ásetti sjer að víkja frá, og sumpart neyddist til að víkja frá, vegna dýrtíðarinnar. Í sambandi við áætlanir og breytingartillögur nefndarinnar skal jeg geta þess, að hún miðaði ekki beinlínis við dýrtíðina, eins og hún er nú á þessu ári, heldur við nokkurs konar »normal«-ástand eftir stríðið, en hærra »normal«verð á öllu en á undan stríðinu, og enn fremur bein áhrif af þessa árs dýrtíð á fyrra ár fjárhagstímabilsins. Hún getur ekki gert sjer annað í hugarlund en þótt stríðinu ljetti bráðum, þá muni verðlag verða alllengi að færast í nokkuð líkt horf og áður var.

Jeg ætla ekki að tala neitt um einstaka liði frv., en ætlaði að eins að taka ómakið af framsm. (M. P.), með að skýra þetta eina atriði frá sjónarmiði nefndarinnar í heild sinni.