06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og hv. deild er kunnugt var mál þetta tekið út af dagskrá, þegar það var síðast hjer til umræðu, vegna þess, að nefndin, sem hafði það til meðferðar, hafði ekki leitað álits fjárveitinganefndar um fjárhagsatriði málsins. Þetta álit meiri hl. hennar er nú komið. En það verð jeg að segja, að það urðu mjer alger vonbrigði og þau því meiri, sem sú hv. nefnd hefir gefið meðmæli ýmsum málum, sem síst er líklegt að geri landinu meira gagn en það, sem frv. þetta fer fram á, eða álitlegra er að leggja fje fram til, en til vjelstjóraskólanna.

Jeg veit annars ekki, hve mikið á að leggja upp úr áliti fjárveitinganefndar og tillögum um mál. Það væri ekki óeðlilegt að skoða það þannig, að hætta ætti við þau mál, sem hún legði á móti. En það hefir nú stundum sýnt sig, að þótt fjárveitinganefnd hafi lagt á móti máli, þá hefir það eigi að síður fengið fram að ganga. Svo mikil sanngirni hefir verið ríkjandi hjá þinginu, að það hefir brotið bág við tillögur fjárveitinganefndar, hafi því fundist henni hafa yfirsjest.

Því bregður annars fyrir í áliti hv. nefndar, að hugsanir hennar sjeu ekki í fullu samræmi við orðin, þar sem hún segist vera mótfallin málinu í þetta sinn fjárhagsins vegna. Í þessu skil jeg ekki, því að það er einmitt tekið fram af sjávarútvegsnefndinni, að lögin skuli ekki koma til framkvæmda fyr en svo fljótt sem hægt er, og þó eigi fyr en að stríðinu loknu. Mótmæli fjárveitinganefndar eru því þýðingarlaus, nema ef „að þessu sinni“ á að þýða sama sem í bráð og lengd, og er þá undarlega að orði komist.

Sjávarútvegsnefndinni var það ljóst, að eigi áraði nú til að fara að leggja út í kostnaðarsamar nýbreytingar, og því lagði hún til um kostnaðarlítið bráðabirgðafyrirkomulag, sem bætti úr brýnustu þörf og við yrði að una, þangað til að hagur hægðist.

Eigi veit jeg til þess, að það hafi verið tilætlunin með fjárveitinganefnd, að hún ætli að koma fram með sjerstök nefndarálit í málum þeim, sem undir hana eru borin, og eigi sje jeg, að það ætti að vera því til fyrirstöðu, að hv. deild samþykki tillögur sjávarútvegsnefndarinnar, þótt fjárveitinganefnd, eða meiri hluti hennar — því að þar var jeg ósamþykkur hinum — liti öðrum augum á fjárhagshlið málsins en sjávarútvegsnefnd, sem þykist hafa tekið fult tillit til hennar, með ákvæðunum um stundarsakir. Jeg vænti svo mikillar sanngirni og glöggskygni hjá hv. deild, að hún sjái, hve hættulegt hið núverandi ástand er, og að brýn nauðsyn sje á að koma upp skólunum sem allra fyrst að auðið er, og að hún muni því greiða atkvæði með frv.

Það mun varla þýða að halda nú langa ræðu um málið. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi þegar ráðið með sjer, hvað gera skuli. En það segi jeg, ef svo skyldi fara, að máli þessu yrði hafnað, að þá mun þingið fá þungan áfellisdóm hjá þeirri stjett, sem það bitnar á; hún hlýtur að skoða það sem snoppung, sjer gefinn, og sannarlega mun það hafa illar afleiðingar að fresta málinu. Þekkingu margra þeirra, sem með vjelar eiga að fara, er mjög áfátt; þeir finna það sjálfir og vildu úr bæta, ef þeir ættu kost á því. Vankunnátta í vjelgæslu spillir stórum eignum manna og getur stofnað lífi manna í háska, og er þar af leiðandi vjelbátaútveginum til hnekkis. Það vilja sumir, að allir sjeu sendir til náms hingað til Reykjavíkur, en bæði eru miklir erfiðleikar á því, og auk þess hefir lítið verið gert til þess, að fullkomna skólann hjer, eða að gera hann færan um að taka á móti öllum þeim, sem í hann þyrftu að leita. Þeir, sem greiða atkvæði á móti máli þessu, taka á sig þá ábyrgð, sem jeg fyrir mitt leyti vildi ekki bera, en jeg vona, að þeir verði fáir; jeg er meira að segja ekki vonlaus um, að sumir úr fjárveitinganefnd muni greiða atkvæði með því og játa, að þeir hafi ekki gefið því fullan gaum, að það er alls eigi ætlast til, að lögin komi í framkvæmd fyr en fjárhagshorfur landsins batna. Jeg vona, að þeir, sem lagt hafa á móti frv., hafi gert það af því, að þeir hafi ekki athugað málið nógu vandlega, og að þeir muni sjá sig um hönd nú, er þeir sjá, að það getur ekki skapað nein fjárhagsvandræði. Það er jafnan fallegt að breyta skoðun, er menn verða þess varir, að þeim hefir skjöplast sýn.