15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

4. mál, samþykkt á landsreikningum 1914 og 1915

Jörundur Brynjólfsson:

Það hefir þegar verið drepið á ýms þau atriði, er jeg vildi minnast á, viðvíkjandi landsreikningunum. Mig furðar það, hvernig reikningsfærslan er í stjórnarráðinu á landsreikningunum. Jeg er sannfærður um, að hvergi í nokkurri verslunarholu er jafnóljós og óglögg reikningsfærsla og þar. Það eru fjöldamörg atriði, sem endurskoðendur hafa gert aths. við og spurt um, hvernig væri varið, en svörin, sem þeir fá frá stjórnarráðinu, eru ýmist út í hött, eða svo óljós, að vart verður sjeð, hvað rjett er. Enn fremur er fyrirkomulagið við ýmsar stofnanir öldungis óbrúklegt. Jeg skal leyfa mjer að drepa á fáein atriði, máli mínu til stuðnings, og fer þó fljótt yfir sögu. Það er þá t. d. 6. aths. endurskoðunarmannanna fyrir árið 1915, um pósttekjur. Í aths. spyrja þeir, hvernig standi á þeim mismun, sem kemur fram í reikningum milli póststjórnarinnar hjer á Íslandi og í Danmörku um viðskifti þeirra. Hann er rúmar 2000 kr. Í svari ráðherra er sagt, að fylgt sje reikningum póststjórnarinnar, og skýring hennar er á þessa leið, er jeg nú skal lesa, með leyfi hæstv. forseta:

»Mismunurinn kemur frá póstávísanaviðskiftunum. Hann lagast og aflagast af sjálfu sjer í viðskiftum innlenda pósthússins við pósthúsin erlendis, og þegar alt það fje, sem hjer rennur inn, er greitt í banka, sem sendir það út á vissum tíma, og annast algerlega póstávísanaviðskiftin við önnur lönd, þá kemur póstávísanafjeð landssjóði ekki lengur við.«

Þetta er greinargerðin um mismun fjárupphæðanna. Það getur verið, að háttv. þingdm. geti gert sig ánægða með þetta, að mismunurinn »lagast og aflagast af sjálfu sjer«, en það verður þá að sýna, á hvaða hátt það verður. Tölurnar geta ekki lagast og aflagast af sjálfu sjer. Það verður að lýsa þessu nánar; annars er engan botn að finna í því.

Þá eru frímerkjabirgðirnar; það virðist einkennilegt, að þær skuli ekki vera taldar um áramót, enda er það alveg óljóst, hve miklar þær eru. Það væri alveg nauðsynlegt, að slík talning færi fram, svo að ljóslega væri hægt að sjá, hve mikið fje póststjórnin hefir undir höndum í frímerkjum. Svo er að vísu svarað spurningunni, að póstmeistari láti telja um áramót, en það er engin endurskoðun, svo að í lagi sje. Það þarf ekki að vera skakt þetta, og þarf ekki að vera nein misbrúkun, en það er heldur engin vissa fyrir því, að það sje rjett, sem sagt er. Til þess að vita með vissu, hvernig þetta er, verður að gera upp póstsjóð. Viðvíkjandi frímerkjunum er rjett að geta þess, að það virðist ekkert eftirlit vera haft með gömlum frímerkjum, sem nú eru mikils virði. (E. A.: Nú eru þau einskis virði). Það eru t. d. þau, sem eru yfirprentuð. »í gildi«, frá 1902—03, sem eru afardýr. Þær birgðir munu allar vera í vörslum póstmeistara, og ekkert eftirlit haft með, hve mikið selst af þessum gömlu og dýru frímerkjum. Mjer dettur ekki í hug að gefa í skyn eða ætla, að póstmeistari misbrúki vald sitt, en það er ófært samt sem áður að láta vera algerlega eftirlitslausa umsjón slíkra eigna, og á ekki að eiga sjer stað. Jeg hefi í höndum þýska skrá yfir frímerki frá 1912, og þar eru þessi íslensku frímerki talin í afarháu verði. Það getur verið, að þau sjeu ekki í afarháu verði nú í augnablikinu, eins og háttv. 2. þingm. Árn. (E. A.) benti á, en það er von um, að þau hækki aftur eftir ófriðinn. Auk þess voru þau í háu verði fyrir stríðið, og verður þó ekki sjeð, að haldin hafi verið nein skrá yfir þau þá. Þetta getur varðað afarmikilli fjárupphæð, og ófært er að láta svo búið standa, enda er það skylda þingsins að ýta undir landsstjórnina að hafa eftirlit með eignum landssjóðs. (G. Sv.: Það er komin till. um það). Ójá, jeg sje, að svo er að vísu, en jeg hefði óskað, að enn meiri áhersla hefði verið lögð á eftirlit og umsjá með eignum hins opinbera af hálfu þings og stjórnar heldur en mjer virðist vera gert í till.

Þá er ein aths. um símatekjurnar. Þar ber landsfjehirði nokkuð mikið á milli við landreikningana, og eftir svari landsfjehirðis að dæma, telur hann sig hafa veitt viðtöku öllu meira fje en stendur í landsreikningunum. (M. G.: Meira?). Já, öllu meira. Endurskoðunarmennirnir hafa gert fyrirspurn um, hvernig á mismuninum stæði. Svar stjórnarráðsins er ekki greinilegt, og hefði verið æskilegt að fá ljósari svör um þann mismun.

Viðvíkjandi endurgreiðslu skyndilána til embættismanna gera endurskoðunarmennirnir aths., því að það kemur í ljós, að eftirstöðvarnar eru ekki teknar upp í eftirstöðvalista, og sýnist þó nauðsynlegt að sjá, hve mikið landssjóður á útistandandi, því að ef það er ekki gert, má búast við, að fjárupphæðirnar týnist. Það ætti að vera föst regla að skrifa allar útistandandi fjárhæðir á eftirstöðvalista.

Loks er eitt atriði í tekjudálki, og það er um málskostnað. Það hefir verið spurt, hvernig á kostnaðinum standi, og á svari stjórnarráðsins verður ekki sjeð, hvers vegna hann er ekki afturkræfur. Það atriði þyrfti að vera gleggra. Endurskoðendur ættu að fá skýrslu um það sundurliðaða.

Þá er útgjaldaliðurinn. Þar eru nokkrar umframgreiðslur. Til símtala, símskeyta og burðareyris embættismanna eru veittar í fjárlögum 10,000 kr., en greitt kr. 23,225,84. Umframgreiðslan er því yfir 13,000 kr. Það sýnist ekki vanþörf á að hækka áætlunina á þessum lið, þegar umframgreiðslan er svona mikil. Satt að segja, kosta þau nokkuð mikið fje, öll þessi símskeyti, samtöl og burðareyrir, og fara því sumir embættismennirnir að verða dýrir, þegar öll kurl koma til grafar.

Til þess er gerð fjárhagsáætlun, að gerð sje tilraun til að fara ekki fram úr henni, síst fram úr öllu hófi. Reikningarnir fyrir þennan lið segja endurskoðunarmennirnir að komi ósundurliðaðir frá stjórnarráðinu, en áður hefir komið fram krafa um að hafa þá sundurliðaða, og stjórnarráðið lofað því. Það ætti að gera glögga grein fyrir þessu, því að það er nauðsynlegt að vita, hvernig stendur á þessum mikla kostnaði, og ef það kæmi í ljós, að einhver eyddi óþarflega miklu í þetta, væri ekki úr vegi að leggja hömlur á það.

Loks kemur 52. atriði í athugasemdum endurskoðunarmanna, og það er um póstsjóðinn. Það er allmikill mismunur, sem þar kemur fram, yfir hálft þriðja þús. kr., sem ekki er fært til reiknings 1915. Svör stjórnarinnar eru þau, að mismunurinn hafi ekki verið kominn inn, en gangi upp í viðskiftin við dönsku póststjórnina næsta ár. Þetta er að vísu ekki stór fjárupphæð, en þessi og þvílíkar tilfærslur valda því, að ekki verður sjeð með neinni nákvæmni, hvernig reikningarnir standa það og það árið.

Þá er 65. atriði, um rannsókn símleiða. Það var spurt, hvernig stóð á ýmsu, sem varið var til rannsókna á símleiðum, og endurskoðendur fullyrða, að kostnaðinum við rannsóknina hafi verið jafnað niður af handahófi. Í svörum landssímastjórans stóð, að því hefði ekki verið jafnað af handahófi, heldur eftir nákvæmri ágiskun. Munurinn er ekki mikill, en það virðist undarlegt, að höfð sje ágiskun við það, hvað rannsókn hinna ýmsu símalína kostar, því að það ætti að vera hægt að bókfæra nákvæmlega kostnaðinn.

Svo er eitt atriði, sem jeg vil nefna, þótt nefna mætti mörg fleiri, og það er landsverslunin og það fje, sem landssjóður hefir lagt í þá verslun. Það hafa komið einar 3 greinargerðir um það frá stjórnarráðinu, en þeim ber ekki saman, og skekkjan milli þeirra og landsreikninganna leikur á mörgum hundruðum þúsunda króna, sem stjórnarráðið segist hafa lagt í verslunina um fram það, sem getið er um í landsreikningunum. Þegar endurskoðunarmennirnir biðja um skýringu og stjórnarráðið fer að leita í fórum sínum, gefur það þrjár greinargerðir; en svörunum frá því ber ekki saman, svo að málið verður því óljósara, sem fleiri skýrslur koma um það. Þótt engu fje sje hjer glatað nje misbrúkað, þá er þetta þó öldungis ófært, og verður að kippa því í lag sem allra fyrst. Hjer er ekki heldur um neina smáreikningsskekkju að ræða.

Út af einni aths. endurskoðunarmannanna viðvíkjandi því fje, sem landssjóður á í sjóði, þá kemur það upp úr kafinu, að það er nokkuð á 2. hundrað þúsund kr., sem liggur vaxtalaust í járnskáp niðri í Landsbanka. Jeg hjelt, að landssjóður hefði þó nóg við fje sitt að gera, og rjettara mundi fyrir hann að láta fje sitt ávaxtast eftir föngum. (M. G.: Hann þarf að hafa það til útborgana.) Hann notar alls ekki þetta fje til daglegra útborgana; það er ekki, heyri jeg sagt, farið í þennan skáp nema endrum og eins, oft og tíðum með margra daga millibili eða meira.

Það eru enn mörg atriði ónefnd viðvíkjandi landsreikningunum, sem mikil ástæða hefði verið til að minnast á, og vonandi er, að gangskör verði gerð að því að koma reikningsfærslunni í stjórnarráðinu í betra horf.