06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg sje, að það er alveg árangurslaust að karpa við hv. þm. Dala (B. J.) um fyrirkomulag slíks skóla, því að á ræðu hans nú var auðheyrt, að hann skilur hvorki nauðsyn þessa skóla, nje heldur, hvernig hann ætti að vera. Hann heldur því fram, að því meiri sje árangur af kenslunni, sem fleiri eru í skólanum. Jeg býst við, að flestir aðrir álíti, að þetta tvent standi í öfugu hlutfalli. Að minsta kosti er það nokkurn veginn víst um heimaskóla þá, sem góðir voru, að þaðan komu menn með engu lakari mentun en úr mentaskólanum, t. d. Jeg efast t. d. um, að nokkur hafi um það skeið komið betur mentaður úr Bessastaðaskóla en Jón Sigurðsson úr heimaskóla.

Annars hefir það aldrei reynst vel að hrúga öllu saman á einn stað í höfuðborgum landanna. Því hafa aðrar þjóðir sjeð sjer hag í því að dreifa hinum ýmsu skólum út um löndin. En fram hjá öllu þessu hefir hv. þm. Dala. (B. J.) gengið, eins og það væri annaðhvort ekki til eða þá ekki eftirbreytnisvert. En það er til og eftirbreytnisvert. Hann leggur ekkert upp úr því, þótt menn missi atvinnu og þurfi að vera að óþörfu og atvinnulausir í Reykjavík, dýrasta stað landsins.

Hann segir, að hjer sje í Reykjavík nóg húsrúm fyrir nemendur, sem, eins og áður er sagt, gætu komið til að skifta hundruðum, þar sem bærinn þó er í vandræðum með húsrúm fyrir íbúa sína. (B. J.: Þetta á ekki að byrja í vetur.) Það víkkar ekki, húsrúmið í Reykjavík, við þá viðbót. Reynsla undanfarandi ára um húsrúm handa mentaskólanemendum og öðrum er ekki glæsileg.

Jeg verð því að segja, að allt það, sem sagt hefir verið móti þessu máli sje „reykur, bóla, vindaský“. Þó tekur út yfir allan þjófabálk, þegar hv. þm. Dala. (B. J.) segir, að tillögur um fyrirkomulagið eigi ekki að koma frá Fiskifjelaginu nje sjómönnum (B. J.: Óskin á að koma frá þeim), heldur frá mönnum, sem lært hafa sjómannafræði, og enga tilhneigingu hafa til að skifta sjer af slíku. Þetta sýnir, hvað maðurinn hugsar sjer, að hugmyndin eigi að komast fljótt í framkvæmd. Nei, tillögurnar hafa komið nákvæmlega úr rjettri átt, frá þeim, sem eiga bátana og á þeim eru, og vilja, að með þá sje tryggilega farið, eða með öðrum orðum, sjómannastjettinni. Veit jeg ekki, hver ætlar sjer þá dul að hafa betra vit á þessu máli en þeir. Því er ekki hægt að segja, að málið sje óundirbúið. Það getur ekki vænst betri undirbúnings. Kákkensla sú, er hv. fjárveitinganefnd vill styðja, er alls ómöguleg. Námsskeiðin geta eingöngu hjálpað, en eru alls ekki það fullkomna, sem þarf.

Hvað fjárframlagið snertir, sem frv. útheimtir, þá er það að segja, að það er ekkert gífurlegt, og mundi fljótar færa landssjóði aftur fje en sumt annað, sem meiri hluti hv. fjárveitinganefndar mun leggja með að greiða. Jeg hefi jafnan haft það fyrir reglu að greiða atkv. með þeim fjárveitingum, til hvaða atvinnuvegar sem er, sem vænlegar eru til framfara. En þeir, sem vilja styrkja einn atvinnuveg og setja annan alveg hjá, eiga í vændum bæði dóm annara manna og sinnar eigin samvisku.