06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

59. mál, mótorvélstjóraskóli

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki svara í löngu máli. Hv. flm. (M. Ó.) taldi öfugt hlutfall milli aðsóknar og árangurs. Það mun vera rjett um barnaskóla, en í fullorðinna skólum fer það eftir því, hve góð kenslan er. Annars er jeg ekki hjer að deila um, hver best hafi vit á þessu máli, heldur um hitt, að tillögur um fyrirkomulag skóla skuli koma frá mönnum, sem vit hafa á skólamálum. Atvinnustjettin hefir vit á atvinnunni og þörfum hennar, og er því rjett, að hún beri fram óskir sínar, en hún hefir ekki vit á skólamálum, og á því ekki að hafa neitt atkvæði um fyrirkomulag skóla. Jeg held, að jeg verði að halda því fram, að rjett sje, að kennarar semji frv. um skólastofnun, en ekki bátaeigendur eða vjelstjóraefni. Jeg var ekki að falast eftir vottorði um, hvað jeg viti, og gat hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) því sparað sjer sín fögru orð þar um.

Hvað viðvíkur húsnæðistali hv. flm.(M. Ó.) skal það um mælt, að jeg ætlast til, að landssjóður stækki sín skólahús. Eftir stríðið mun verða bygt svo mikið hjer í Reykjavík, að eigi mun húsnæði skorta. En ef ástandið hjer í Reykjavík er svo voðalegt, þá þykir mjer það furðu sæta, ef húsnæði er til handa hundruðum manna í öðrum kaupstöðum. Þetta tal um húsnæðið er annars alveg út í loftið, og kemur ekki málinu við.

Jeg hygg þægilegast að afgreiða þetta mál vingjarnlega, með rökstuddri dagskrá, er færi í þá átt að auka framlög til vjelfræðslu, og þá sjerstaklega við vjelstjóraskólann í Reykjavík.