21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Flm. (Matthías Ólafsson):

Orsökin til þess, að jeg hefi gerst flytjandi þessa frv., er sú, að mjer hefir altaf verið eftirsjá að mönnum, sem hafa farið úr landinu til Ameríku. Fækkun fólksins er mjer þyrnir í augum. Það verður að gera alt, sem hægt er, til þess, að hjer verði búandi fyrir alla, sem hjer eru bornir.

Þegar nú landar vorir, sem hafa aflað sjer þekkingar á atvinnuvegum, sem hjer eru óþektir, vilja flytja heim, er okkur skylt að hjálpa eftir mætti til þess, að það geti orðið. Þess vegna er mjer ljúft að flytja þetta frv. Í því er að eins farið fram á heimild fyrir landsstjórnina til að veita einkarjett til að veiða lax úr sjó. Nú leitar atvinnumálaráðherra, áður en leyfið er veitt, upplýsinga um málið, og virðist honum svo, eftir upplýsingunum, að laxveiði í ám gæti verið hætta búin af einkaleyfinu, og veitir hann það þá auðvitað ekki. En virðist honum, að laxveiðar í sjó myndu koma fleirum að gagni en laxveiði í ám, sem varla getur talist atvinnuvegur, heldur miklu fremur nokkurs konar „sport“, ber auðvitað að taka heill hinna mörgu fram yfir heill hinna fáu. En þetta er eingöngu heimild, sem ekki kemur til að verði veitt, nema landsstjórnin sjái, að það sje hættulaust.

Jeg skal ekki minnast á einstök atriði frv. fyr en við 2. umr. Jeg legg svo til, að frv. verði vísað til sjávarútvegsnefndar.