21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar. Jeg tel víst, að flm. (M. Ó.) hafi gengið gott eitt til að flytja þetta frv. En þess er jeg og fullvís, að ef hann hefði kynt sjer betur það, sem hann nú er að flytja, hefði hann ekki komið með það inn í deildina, og það jafnvel þótt um efnilegan mann sje að ræða, og þótt hann komi ekki til landsins aftur, nema hann fái einkaleyfið.

Það er auðvitað, að þessar laxveiðar í sjó myndu stórspilla fyrir laxveiði annara landsmanna. Laxinn kemur að landinu og gengur upp í árnar til að halda við kyni sínu. Viðkoman er sára lítil; af einum meðallaxi, sem hjer gengur í ár, koma ekki nema um 20 þúsund hrogn; af þeim verða ekki nema 2—3 þúsund fullþroska. Þetta sanna rannsóknir erlendra fiskifræðinga. Þar, sem náttúrunni er hjálpað með laxaklaki, verður auðvitað viðkoman af hverjum laxi miklu meiri, en slíku er ekki að heilsa hjer hjá okkur. Það er því fullljóst, að það væri dauðadómur fyrir laxveiði hjer á landi, ef einkaleyfi þetta fengist. Leyfishafi myndi auðvitað sópa upp laxinum fyrir framan árósana, þegar hann væri að ganga upp. Alstaðar við árósa eru eyrar, og djúpir álar á milli; en eftir álunum gengur laxinn, jafnvel þótt háflóð sje. Með góðum veiðitækjum væri því hægt að sópa upp hverri bröndu. Þetta er líka auðvelt, þegar þess er gætt, að laxinn þarf að dvelja góða stund við árósana, til að venjast ferska vatninu, áður en hann gengur upp í árnar.

Jeg vil ekki taka eins hart á frv. og hv. þm. Borgf. (P. O.), og vonast þó til, að það nái ekki fram að ganga. En jeg vil gjarnan vera mjúkhentari, því að flm. (M. Ó.) hefir að eins gengið gott til, þótt hann hafi skort þekkingu á þessum efnum. En menn verða að gæta að því, að það er meira virði fyrir land og þjóð, að laxveiðin haldist, og verði gott gagn að, eins og verið hefir, heldur en ef hún yrði eyðilögð á nokkrum árum af einstökum mönnum, jafnvel þótt þeir stórgræddu á Það yrði nokkuð líkt um laxinn, ef hann þyrri, og nú er um skógana. Við hefðum sjálfsagt óskað, að forfeður vorir hefðu hlíft meira skógunum, og gagnið af þeim hefði orðið þeim minna og jafnara, og við fengið að njóta þeirra meir en nú gerum vjer. Þó að þjóðinni allri sje ekki beint gagn að laxveiði. eins og nú er, er ekki síður ástæða til að setja lög henni til verndar; slík lög eru til um margt, er að eins snertir lítinn hluta þjóðarinnar, og þarf ekki að nefna annað en lög um friðun á æðarfugli og friðun á sel, þar sem sellátur er. En það, sem styður að hag einstakra manna, styður og þjóðina í heild sinni, oft og tíðum.