21.07.1917
Neðri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

79. mál, einkaréttur til þess að veiða lax úr sjó

Flm. (Matthías Ólafsson):

Jeg get verið fáorður, þótt jeg þurfi að svara, því að mótstöðumenn mínir hafa ekki hrakið neitt af orðum mínum, en að eins komið með æði margar fullyrðingar. Jeg held, að það hafi verið hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem fullyrti, að hver einn einasti lax, sem ætlaði að fæða af sjer, færi til þess upp í árnar. Það getur verið, að þeir hrygni allir í ám. Jeg veit það ekki, en skal líka viðurkenna hátíðlega, að jeg er enginn laxfræðingur. En jeg veit það, að annarsstaðar er lax veiddur í sjó alt árið, og veit jeg ekki til, að nokkur hafi neitt við það að athuga. Mjer finst, að það væri því engin fjarstæða að reyna það hjer líka. En það er vitanlegt, að ef einhver maður sýnir mikinn dugnað í sjávarútvegi, þá þykir sjálfsagt, t. d. hjer við Faxaflóa, að hefta framkvæmdir dugnaðarmannsins með samþyktum, enda kvað Þorsteinn Erlingsson:

Það er mælt um þá suður með sjó,

að samþyktir láti þeim verst.

Þeir, sem hafa ekki sjálfir framtakssemi til að byrja á nýjum aðferðum, sjá svo ofsjónum yfir velgengni dugnaðarmannsins.

Jeg held, að það væri naumast neinn skaði skeður, þótt þetta frv. yrði samþykt, því að það fer einungis fram á heimild fyrir landsstjórnina til að veita þennan rjett. Hún myndi leita ráða, áður en hún veitti einkaleyfið, og taka sjálfsagt til ráðunauts, meðal annara, laxfræðinginn 1. þm. Reykv. (J. B.) Einkaleyfið er einungis til að tryggja manninum það, að hann fái eitthvað upp í kostnað sinn. Jeg verð að telja það blátt áfram ókurteisi, ef þetta mál verður ekki látið ganga til 2. umr., og sýnir það það eitt, ef það verður felt, að þingmenn láta einstöku menn telja sjer trú um það, sem þeir geta ekki vitað, hvort er fyllilega rjett. Jeg hygg, að margir gætu hallast að því, að þetta gæti orðið atvinnuvegur fyrir marga, og því vert að athuga málið.