25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Það virðist svo, sem hv. 2. þm. Rang. (E. J.) sje sárt um að selja þetta hús, en jeg skil ekki, hvaða ástæða er til þess að vilja endilega halda í það, eins og húsið er úr garði gert.

Mjer skildist svo á hæstv. forsætisráðherra, að hann hefði ekki rnikið á móti frv., ef reist væri annað hús úr steini á undan. Jeg lít svo á, að selja beri þetta hús fyrst, og síðan getur landsstjórnin gert ráðstafanir til þess að reisa steinhús. Og þótt jeg hafi ekki tekið það með í frumvarpið, þá get jeg lýst yfir því, að jeg mundi styðja tillögu um það, ef hún kæmi fram. En nú sem stendur er ofdýrt að byggja, og þess vegna vil jeg ekki leggja með því, að það sje gert strax. En í vetur mætti, sem dýrtíðarráðstöfun, veita fátæklingum atvinnu við undirbúning verksins, mylja grjót o. s. frv.

Þetta hús hefir verið þungur ómagi, eins og jeg nefndi áðan. Aðgerð í ár numið 3650 kr., auk 2600 kr. í búshlutum, og það mun ekki of í lagt, að í húsið hafi þegar verið lagt til aðgerðar og viðhalds, auk kaupverðs, um 15000 kr. eða nálægt því.

Hæstv. forsætisráðherra taldi það geta orðið vandræði fyrir forsætisráðherrann að halda uppi risnu, ef húsið yrði selt. Til þess er því að svara, að núverandi forsætisráðherra býr í sinu eigin húsi og hefir haldið þar veislur, og farið vel. Jeg skal engu spá um, hve lengi hann situr að völdum hjer eftir. En nýjum forsætisráðh. ætti engin skotaskuld úr því að verða, þótt nýtt hús væri ekki komið upp, til að halda í veislur, því að þær gæti hann haldið í opinberum veitingastöðum hjer í bæ, t. d. Iðnaðarmannahúsinu o. fl.

Það hafa því ekki komið fram nein rök gegn sölunni, heldur þvert á móti mælir alt með henni. Jeg hefi þegar bent á, að stjórnin getur nú í vetur gert ráðstafanir til að undirbúa bygging nýs ráðherrabústaðar, og gæti með því bætt úr atvinnuskorti manna hjer í Reykjavík.

Jeg vona, að frv. gangi fram, og er ekki mótfallinn því, að það fari til fjárhagsnefndar, eins og stungið hefir verið upp á, þótt jeg álíti þess ekki þörf.