04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

87. mál, sala á ráðherrabústaðnum

Björn Stefánsson:

Jeg er að hugsa um að ganga á vitsmunavogina með hv. 1. þm. Árn. (S. S.). Það er viðurkent af mótmælendum þessa frv., ekki síður en flytjanda þess, að viðkunnanlegra og hyggilegra sje, að byggingar landssjóðs sjeu úr steini en timbri. Jeg held, að það fáist varla heppilegri tími til að breyta til um þetta hús, sem er timburhús, en einmitt nú. Nú eru hús í háu verði. En af því að forsætisráðherrann núverandi þarf ekki á húsi að halda, er hægt að komast af í bili án nokkurs ráðherrabústaðar, þar til byggingarefni fellur í verði. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða, að forsætisráðherrann haldi sæti þar til ódýrara verður að byggja. En þá er hægt að hafa einhver ráð, Jeg held, að ráðherra hafi verið búsettur hjer í 5 ár áður en landið átti nokkurt hús handa honum. Jeg tel það engan voða, þótt fyrir kæmi, að vjer yrðum bústaðarlausir handa forsætisráðherra önnur 5 ár. Því að þótt þröngt kunni að vera um húsnæði, myndi þó þrengra um einhvern en forsætisráðherra vorn. Mundi muna miklu minnu á leigunni um stundarsakir, ef til kæmi, en þeim hagnaði að selja hús nú, er þau eru í svo háu verði, til þess að byggja aftur á hagstæðari tíma. Held jeg því, að það sje mjög girnileg leið, sem stefnt er með frv. þessu. Hv. frsm. (Þorst. J.) sagði, að flm. (S. S.) hefði lýst húsinu svo, að enginn mundi gerast sá glópaldi að kaupa. Jeg hefi heyrt, að húsið væri vandað, af timburhúsi að vera. Hitt getur verið, að viðhaldi þess sje eitthvað ábótavant, en jeg hygg, að um þá eina galla sje að ræða, er lítið kostaði að gera við, og muni engan fæla frá að kaupa, því að sá, sem hefir hug til og ráð á að kaupa húsið, hefir einnig dug til að gera við það, sem því kann að vera ábótavant.