02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (2742)

88. mál, veiting læknishéraða

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Á þingmálafundum Árnesinga í vor var samþykt áskorun til Alþingis um að búa til lög, er heimila mönnum að kjósa sjer lækna. Þessi ályktun var gerð á öllum 4 þingmálafundunum í sýslunni. Þar sem jeg nú er alveg samdóma kjósendum mínum um aðalkjarna þessa máls, var ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að jeg teldi það skyldu mína að flytja á þingi þetta frv. um veitingu læknishjeraða.

Það er sannfæring mín, að hjer sje um rjettmæta kröfu að ræða.

Það er langt síðan þessu máli var fyrst hreyft. Við og við hafa heyrst raddir um það meðal þjóðarinnar, bæði á þingmálafundum og í blöðum, að rjett sje að heimila mönnum að kjósa sjer lækna á sama hátt og presta.

Kosning lækna er í raun rjettri hliðstæð kosningu presta. Get jeg ekki sjeð, að varhugaverðara sje að kjósa lækna á þennan hátt en presta. Maður getur sagt, að prestarnir sjeu andlegir læknar manna, en læknarnir líkamlegir. Nú er því einu sinni svo varið, að menn láta sig ekki svo litlu skifta líðan sína hjerna megin. Menn vilja alment, að sjer líði sem best, og til þess heyra góðir læknar. Með öðrum orðum, menn láta sjer annast um tímanlega velferð sína, og í því tilliti eru læknarnir mikils virði. Menn láta sig jafnvel minnu skifta, hvað tekur við fyrir handan gröf og dauða, en það mun hlutverk prestanna að leiða menn í allan sannleika um það. Fyrir því tel jeg það sanngjarnt, að menn fái að kjósa sjer lækna, ekki síður en presta.

Því er oft haldið á lofti, að kosning presta fari ekki altaf sem best úr hendi. Það má ef til vill finna dæmi þess, en þau eru ekki mörg. Á síðustu árum hefir mjer vitanlega ekki orðið ein einasta hneyksliskosning á presti. Menn eru nú búnir að læra svo mikið af reynslunni, að þeim er nú miklu betur trúandi til þess en áður að nota kosningarrjettinn. Hættan á því, að hann verði misbrúkaður, er því miklu minni nú en áður. Enn þá minni er hættan á því, að kosning lækna mistakist, sökum þess, að menn leggja svo mikið upp úr því að hafa góðan lækni. Menn láta sig yfirleitt miklu meiru skifta sína líkamlegu velferð heldur en þá andlegu, og leggja meiri áherslu á það, að fá góðan lækni heldur en góðan prest, þótt mjög sje eftir því sótt líka. Það er því óhætt að treysta því, að kosning lækna fari yfirleitt vel úr hendi, og óþarfi að óttast misfellur.

Þetta mál tekur til hvers einasta manns, því að fyrir alla getur það komið, að þurfa

að leita til læknis. Þeir munu því finna til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvílir, er þeir eiga sjálfir að kjósa sjer lækninn. Jeg efast ekki um, að veiting læknishjeraða með þessu móti mundi verða vinsæl og gefast vel. Jeg skal ekki fara út í þá sálma að segja neitt um, hvernig veitingarvaldið fer nú að ráði sínu. En víst er um það, að misjöfnum augum líta menn 4 ráðstafanir þess, og jeg er þess fullviss, að kosning læknanna færi ekki lakar úr höndum en veitingin fer stundum. Takist kosningin illa, þá geta menn sjálfum sjer um kent, og það eykur á ábyrgðartilfinninguna. Nú getur skeð, að sumir sjeu hræddir við „agitatiónir“. Já, það má búast við því, að reynt verði að „agitera“ við þessar kosningar, eins og aðrar. En „agitatiónir“ hafa nú minna gildi, síðan farið var að kjósa leynilega, og geta lítil áhrif haft á úrslitin.

(B. J.: Ein kognaksflaska getur gert út um kosninguna). Ein kognaksflaska gerir ekki neitt. Enda geri jeg ekki ráð fyrir, að það verði svoleiðis menn, sem um embættin sækja, að þeir hafi vínföng á boðstólum í bannlandi. (B. J.: En „recept“). — Það skyldi þá heldur vera „recept“. — Hjer er stórt rjettindamál á ferðum, sem snertir alla alþýðu manna, og hættan engu meiri en með kosningu presta. Jeg vænti því góðra undirtekta hjá háttv. deild, og leyfi mjer að leggja til, að þegar þessari umr. er lokið, þá verði málinu vísað til allsherjarnefndar. Sú nefnd er góðum og greindum mönnum skipuð. Jeg treysti henni til alls góðs og vona, að hún greiði götu frv. lengra áleiðis.