02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (2746)

88. mál, veiting læknishéraða

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Hv. þm. Stranda. (M. P.) byrjaði ræðu sína sem prestur, en ekki sem læknir. Hann hjelt hirtingarræðu yfir mjer, og öðrum syndurum, fyrir það að flytja frumvörp. Það getur verið ofmikið gert að því að flytja frumvörp inn á þingið, en þetta frv. er gott, og á því rjett til þess að vera flutt inn á þing. Sami hv. þm. (M. P.) sagði raunar, að það væri óþarft og skaðlegt; frá hans sjónarmiði er það líklega hvorttveggja, en honum tókst ekki fimlega að færa ástæður fyrir þeirri staðhæfingu.

Það, sem hv. þm. (M. P.) hafði út á frv. að setja, fyrir utan einn formgalla, sem sennilega er rjett athugað hjá honum, lenti mest í útúrsnúningum og viðleitni til þess að færa orð mín á verra veg. Hann byrjaði á að tala um það, hvernig prestar færu að, þegar þeir vildu ná kosningu; þeir gerðu sjer þá ferð um prestakallið og sýndu sinn betra mann, en hyldu skálkinn, dyldu úlfinn í sauðargærunni. Þessi var meining orða hans. Jeg geri nú ekki ráð fyrir því, að alment hagi menn sjer þannig; alment munu menn koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Jeg fæ ekki heldur sjeð neitt á móti því, að læknir ferðist um það umdæmi, sem hann ætlar sjer að sækja um; með því fær hann tækifæri til þess að kynna sjer fólkið, og það til þess að kynnast honum, og persónuleg viðkynning hefir þó altaf nokkuð að segja. En yfirleitt mun ekki vera ástæða til þess fyrir lækna að ferðast um umdæmin, því að öll alþýða getur snúið sjer annað til þess að fá upplýsingar, t. d. landlæknis, þótt fjarri sje það mjer að segja, að dómar hans sjeu óskeikulir í þessum efnum, til háskólans og, ef um eldra lækni er að ræða, til hjeraðsbúa hans o. s. frv. Það gæti auðvitað komið fyrir, að einstaka menn trönuðu sjer fram, leyndu göllum sínum fyrir almenningi, en ekki mundi það verða aðalreglan.

Sami hv. þm. (M. P.) var hræddur um það, að læknar mundu beita „agitationum“ til þess að ná í embætti. Jeg er nú ekki hræddur við það. Ónýtum læknum, sem stútað hafa fleiri mönnum en þeir hafa hjálpað til lífsins, og óreglumönnum, mundi verða þýðingarlaust að koma fram til þess að „agitera“ fyrir sjálfum sjer. Menn mundu leita sjer upplýsinga um læknana, áður en til kosninga kæmi, og byggja meira á þeim heldur en þótt læknarnir sýndu sig sjálfir.

Sami hv. þm. (M. P.) sagði, að ekki væri vert að ræða þetta frv., og vildi helst ráða niðurlögum þess; í sama streng hafa tveir hv. þm. tekið, sem talað hafa á eftir honum. Þetta sýnir þá einmitt það gagnstæða, að það er vert að ræða frv., enda er svo í raun og veru.

Hv. sami þm. (M. P.) sagði, að þótt kosningar tækjust skaplega, sem hann samt trauðlega bjóst við, þá yrði þó altaf til minni hluti, sem yrði óánægður. Það má búast við því, að minni hluti sje alla tíð óánægður, en engin sönnun er það þess, að óánægjan þurfi að vera mikil, síst ef meiri hlutinn hefir valið góðan lækni. Jeg get hugsað mjer, að þar sem umsækjandi á skyldmenni eða vandamenn, þá hefji þeir „agitation“ til þess að koma honum að, og verði til þess að vekja óánægju, ef hann kemst ekki að. En allur þorri manna mundi haga svo vali sínu, að minni hlutinn yrði sem minstur og óánægjan lítil.

Hv. sami þm. (M. P.) vildi halda því fram, að það gæti átt sjer stað, að óánægja væri kveikt gegn manni innan hjeraðs, áður en hann hefði sýnt sig. Það má gera ráð fyrir öllu mögulegu, þegar um óhlutvanda menn er að ræða, sem illu vilja koma af stað. En ef hann hefir meint þessi orð til einstakra manna, t. d. út af læknisveitingu í Árnessýslu, þá mótmæli jeg þeim kröftuglega.

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) fann sjer skylt að ráðast á frv. grimmilega. Hann fann enga tryggingu í því að kjósa lækna, treystir nú stjórninni — aldrei þessu vant — miklu betur til þess að velja lækna en hjeruðunum sjálfum. Hjer er jeg á alveg gagnstæðri skoðun. Mjer þykir leitt að fara út í þetta mál, en það er hægt að sýna með mörgum dæmum, að stjórninni hefir oft tekist hrapallega í veitingu þessara embætta, og hefir þá ekki haft fyrir augum hagsmuni hjeraðanna, heldur hefir þurft að koma að skjólstæðingum sínum eða mönnum, sem ekki var unt að koma annarsstaðar að.

Annars virðist sú vera regla stjórnarinnar að taka ekki svo mjög tillit til hæfileika manna, heldurs til aldurs manna, hverjir væru elstir embættismenn af umsækjendunum og elstir kandidatar, þegar um embættaveitingar er að ræða, án þess að gæta þess, hvað hjeruðunum er fyrir bestu. Eftir þessari gömlu og úreltu reglu fer stjórnin. En ef rjetturinn skeði, þá ætti að veita þeim manni embættið, sem álitlegastur væri til þess að rækja köllun sína, hvort sem hann væri eldri eða yngri, kandidat eða embættismaður. Hv. þm. N.-Þ.

(B. Sv.) sagði líka, að rjettast mundi að leita umsagnar landlæknis um umsækjendurna, en það virðist ekki mundu gagna mikið, þegar reglan er sú að veita jafnan elsta manni embættið, enda geta hjeraðsbúar leitað slíkra umsagna, ef þeir vilja, svo sem jeg drap á áðan.

Sami hv. þm. (B. Sv.) sagði líka, að umsækjendurnir mundu beint þurfa að æfa sig í ræðuhöldum sjerstaklega; þetta er nú víst fyndni hjá hv. þm. (B. Sv.), enda kemur ekki málinu við. Yfirleitt mun umsækjendunum lítið að gagni koma mælska og glæsimenska.

Sami hv. þm. (B. Sv.) hjelt, að frv. ætti rót sína að rekja til ástandsins í Árnessýslu, sem skapast hefir út af veitingu læknishjeraðsins þar að neðanverðu. Jeg skal ekki bera á móti því, að það dæmi er ein af ástæðunum til þess, að frv. er fram komið, en þó er það ekki nein aðalástæða. Annars tel jeg hollast að halda þessu máli fyrir utan umræðurnar, og lýsi að öðru leyti ummæli hv. þm. (B. Sv.) um þetta helber ósannindi og honum ósamboðin.

Hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) fann hjá sjer sömu köllun sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að lýsa yfir því, að veitingunni væri betur borgið hjá stjórninni. Jeg hefi áður sýnt fram á það, að þetta er hin argasta meinloka, og þyrfti ekki annað en benda á nokkra lækna, sem eru gersamlega óhafandi, og hefðu átt að segja af sjer fyrir löngu, í stað þess að sitja í trássi bæði við guð og menn.