15.08.1917
Neðri deild: 34. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

4. mál, samþykkt á landsreikningum 1914 og 1915

Jörundur Brynjólfsson:

Sumir þingmenn, sem talað hafa, hafa, að því er virðist, skilið orð mín svo, að jeg hefði verið að drótta að stjórninni eða starfsmönnum hennar, að hún muni hafa misbrúkað það fje, sem jeg taldi ekki nægilega grein gerða fyrir. Jeg sagði ekki eitt orð í þessa átt. Hitt sagði jeg, að reikningsfærslan væri ekki í eins góðri reglu af hendi hins opinbera og æskilegt hefði verið. En það er mjög óverðskuldað og óviðeigandi að koma með nokkrar getsakir í garð minn, um að jeg hafi, með orðum mínum áðan, dróttað óráðvendni að nokkrum. Jeg vænti líka, að flestir háttv. þingmenn hafi ekki misskilið orð mín á þann veg. Viðvíkjandi því, er andmælendur mínir hafa sagt, get jeg ekki farið að rekja lið fyrir lið, heldur víkja að eins nokkrum orðum að nokkrum atriðum.

Viðvíkjandi orðum háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) skal jeg geta þess, að jeg ávítaði engan fyrir það, hve mikil símagjöld opinberra starfsmanna hafa orðið. En hinu hjelt jeg fram, að það væri leiðinlegt, hve mikið bæri á milli áætlunarupphæðar og þeirrar, er borguð hefir verið. Stríðið var byrjað þegar áætlunin var gerð, og því hefði mátt búast við, að hægt hefði verið að hafa hana rjettari. Jeg sagði einmitt, að þessa upphæð hefði átt að áætla miklu ríflegar. Endurskoðunarmennirnir hafa áður farið fram á, að skýr grein væri gerð fyrir þessum lið, en stjórnin hefir ekki orðið við þessu enn. Þessi athugasemd mín er því ekki til komin af neinni vanþekkingu.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði og, að fjeð, sem geymt er í járnskápnum í bankanum, væri notað við dagleg viðskifti. En eftir því sem mjer hefir verið tjáð, og það hefi jeg frá góðum heimildum, er fje þetta alls ekki notað til daglegra þarfa, heldur sem skiftifje, og til þess þarf ekki að nota það nema endrum og eins. Það virðist ekki nauðsynlegt að láta svo stóra upphæð liggja vaxtalausa, að eins til að grípa til, ef þarf að skifta peningum.

En það lagði jeg áherslu á, að reikningsfærsla bæði landssjóðs og landsverslunarinnar þyrfti að vera miklu gleggri. Það var misskilningur hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), að jeg væri nokkuð vondur út af þessu. Jeg fann bara að því, sem mjer fanst sjerstaklega aðfinsluvert.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) ætlaði, að jeg vildi viðhafa kaffibollareikning við rannsókn símleiða. Það er misskilningur. Það er enginn kaffibollareikningur, þar sem 1000 kr. eru taldar til útgjalda við rannsókn á einni símalínu, en var varið til að greiða 1000 kr. skuld, algerlega óviðkomandi þessari símalínu o. s. frv.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þarf jeg ekki mörgu að svara. Hann virtist vera undur ánægður með landsreikninginn, hvernig frá honum er gengið, en taldi aðfinslur mínar af vanþekkingu gerðar. Jeg skal ekki um þetta þrátta við hv. þm. (M. G.). Landsreikningurinn sýnir sig, og þar geta aðrir dæmt um, og jeg mun óhræddur bíða þess dóms. Svar stjórnarráðsins viðvíkjandi póstviðskiftum milli Danmerkur og Íslands þótti honum ágætt. Gott honum, en ekki nægir það mjer.

Annars töluðu þessir tveir háttv. þm. aðallega um smáatriðin, sem jeg nefndi, en báru ekki við að rjettlæta það, sem mestu skiftir í þessu máli, sem sje þar sem mestri fjárhæð ber á milli athugasemda endurskoðenda og skýringa stjórnarráðsins.