08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

99. mál, sveitarstjórnarlög

Hákon Kristófersson:

Í nál. er talið rjett, að lagt sje á menn, eftir efnum og ástæðum, þar sem þeir stunda veiði. Að mínu áliti er þetta ekki í samræmi við lög nr. 33, 2. nóv. 1914. Jeg skil þau svo, sem að eins megi leggja á með tilliti til aflans. Hitt næði engri átt, að leggja mætti á menn, er afla stunda í fjarlægum hjeruðum, ásamt því er þeir afla þar, allar eignir, er þeir eiga í sínu eigin bygðarlagi, en það yrði að gera, ef leggja á á menn eftir efnum og ástæðum, eins og nál. virðist benda á að eigi að vera. Ef skilning nál. væri ómótmælt, virðist mjer mætti líta svo á, að það væri líka skilningur deildarinnar.

Ef frv. gengur til 3. umr., mun jeg koma með brtt. um, að bátar, sem ganga frá öðrum veiðistöðum en þar, sem þeir eiga hejma, sjeu þar undanþegnir útsvari. Mjer er kunnugt um, að þessi útsvör í öðrum hreppum hafa komið allhart niður á einstökum mönnum. Jeg hafði hugsað mjer að koma með frv. í þá átt að fá þessu ákvæði breytt, en þegar jeg vissi um, að þetta frv. var á ferðinni, fjell jeg frá því, en hafði hugsað mjer að koma með viðauka eða brtt. við þetta frv. við 3. umr.