02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

107. mál, merkjalög

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil að eins geta þess, að allsherjarnefndin er nú svo störfum hlaðin, að hún getur ekki tekið við þessu máli. Sje heldur ekki annað en að hjer sje um algert landbúnaðarmál að ræða. Ef landbúnaðarnefndin telur sig þurfa aðstoð lögfræðings, þá getur hún bætt við sig manni.

Annars skal jeg geta þess, að svo virðist, sem ætlast sje til samkvæmt frv., að þinglýsa skuli öllum landamerkjum. Það er ekki hægt að sjá það, hvað eru ný landamerki og hvað ekki, því að landamerkin geta hafa týnst eða önnur örnefni nefnd, þótt landamerkjalínan sje sú sama. Jeg sje ekki, að það geti komið til mála að fyrirskipa að skrifa að nýju upp allar landamerkjabækur. Það ætti að vera óþarfi að rita upp önnur landamerki en þau, sem ekki hefir verið þinglýst síðan 1882, en þær jarðir, sem svo stendur á um, munu vera tiltölulega fáar. Venjulega rís landamerkjaágreiningurinn nú af því, að það hefir verið vanrækt að setja upp þau landamerki, sem ákveðin hafa verið.