02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

107. mál, merkjalög

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg skal ekki fara neitt út í það, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hafði að athuga við frv. sjálft. En á hinu get jeg ekki annað en furðað mig, að hann skuli vilja venja hv. þm. af því að lesa annað en greinargerð frv., og þó taka sjálf þingsköpin það fram, að hún skuli vera „stutt“. Það er hægur vandi að benda á það, að nefndarálit er nú ekki alls fyrir löngu komið frá þessum hv. þm. (P. J.), sem ekki er nema örfáar línur, en sagt þar, að nánari grein skuli gerð fyrir frv. við framsöguna. Ef nú margir hv. þingmenn hefðu sama siðinn og hv. þm. S.-Þ. (P. J.), væru mjög sjaldan í sætum sínum eða inni í þingsalnum meðan þingfundir stæðu yfir, þá myndu þeir missa af upplýsingum í framsöguræðu. Jeg trúi því þó tæplega, að hann ætlist til, að nefndarálitin sjeu styttri en greinargerðirnar fyrir frv. sjálfum.

Það er ekki rjett, að tilgangi merkjalaganna verði ekki betur náð með þessu frumvarpi en gildandi lögum. En um það hefi jeg áður talað og tek það ekki upp aftur.