28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

107. mál, merkjalög

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Eins og hv. flm. þessa frv. (Þór. J.) skýrði frá, við 1. umr. þess hjer í deildinni, þá mun það vera samið af formanni Búnaðarfjelags Íslands, Eggert Briem. Þessi maður er, eins og allir vita, skýr og glöggur á alt, sem að landbúnaðarmálum lýtur. Allir geta því sjeð, að hann myndi því að eins hafa hreyft þessu máli, að honum hefði verið kunn þörfin á þess konar lögum. Jeg býst því við, að allir muni fallast á, að nauðsyn beri til að setja einhver lög um þetta efni, frekari en þau, sem nú gilda.

Landbúnaðarnefndin hjer hefir nú haft frv. þetta til meðferðar og athugað það vandlega. Nefndin hefir að sönnu öll kannast við, að víða mundi vera ágreiningur um landamerki og landamerki óglögg, og að því væri rjettmætt, að ráðin yrði bót á þessu. Hins vegar hefir nefndin ekki getað orðið á einu máli um leiðina. Meiri hl. hefir komið fram með brtt. á þgskj. 534 og nefndarálit á þingskjali 540, og vona jeg, að allir hv. deildarmenn hafi kynt sjer þau skjöl. Jeg skal geta þess, að þótt minni hlutinn hafi ekki getað átt samleið með okkur hinum, þá á hann þó sinn góða þátt á breytingartillögunum á þingskjali 534.

Jeg skal þá snúa máli mínu að nefndaráliti hv. minni hl. á þgskj. 638. Helstu ástæðurnar, sem þar eru teknar fram, eru þær, að verkið sje svo umfangsmikið og kosti svo mikla skriffinsku og fyrirhöfn, að ekki komi til mála að samþykkja frv. Helst sýnist þar vera átt við það ákvæði í frv., að semja skuli að nýju allar landamerkjalýsingar og landamerkjaskrár á landinu.

Jeg hygg, að þetta sje ekki alls kostar rjett. Sje svo, að alt sje eins glögt og það á að vera, þá tekur þetta ekki lengra en það, að hver maður þarf að senda brjef sem ekki er lengra en hvert meðalsendibrjef, til sýslumanns, en sje eigandi jarðar fjarverandi, þá hefir hann venjulega einhvern umboðsmann í grendinni, og þarf þetta því ekki að kosta nein fjárútlát. En sje nú svo, að vanrækt hafi verið að þinglýsa landamerkjum, þá kostar það auðvitað meiri fyrirhöfn, en er þá heldur ekkert annað en það, sem þarf til að framfylgja eldri lögum, og verður það tæplega talinn óþarfi.

Hv. minni hl. hefir rjett fyrir sjer í því, að ekki verða slíkar landamerkjagerðir teknar upp án þess, að það kosti ómak og fyrirhöfn. Það er ætíð fyrirhafnar minst að hafast ekkert að. Það kostar jafnan minna ómak að vera neikvæður en jákvæður í hvaða máli sem er. En það get jeg ekki sjeð að horfa eigi í nokkra fyrirhöfn, þar sem mörgum góðum mönnum kemur saman um, að þetta sje nauðsynjamál. Hjá þessu verður ekki komist, ef vel á að vera.

Áður en jeg fer út í einstök atriði skal jeg nefna dæmi, sem skýrt getur betur en nokkur orð þörfina á endurnýjun landamerkja. Jeg er við riðinn fasteignamatið í því hjeraði, sem jeg á heima í. Við athugun á landamerkjalýsingum og skrám kom það í ljós, að víða varð lítið gagn af þeim haft. Eru þó til þinglesnar landamerkjaskrár, sem grípa yfir allar jarðir og óbygðar lendur viðkomandi hreppa. En það var ýmist, að engin merki voru sett, eða merkjalýsingarnar ósannar. Það voru jafnvel til landspildur í grend við landamerki, sem ókleift var að segja um, til hvaða jarðar heyrðu. Það hafa sagt mjer mætir menn, að víðar muni eins ástatt, svo að ekki verður móti því mælt, að talsverð þörf er nýrrar merkjagerðar.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um einstakar greinar frv., og þá sjerstaklega í sambandi við breytingartillögur nefndarinnar.

1. brtt. á þgskj. 534, við 1. gr. frv., er að mestu að eins orðabreyting. Þar er þó strax gert ráð fyrir því, að sett sjeu glögg merki. Það er ekki nóg að skipa fyrir um viðhald á merkjum fyrir jörðum þar sem engin merki er að sjá. Það er tekið fram um margar leigujarðir, að leiguliðar skuli halda við landamerkjum, en þeirri samningsskyldu er oft ekki hægt að fullnægja, þar sem engin landamerki eru til. Því hefir meiri hluta nefndarinnar sýnst sanngjarnt að gera merkjagerð, þar sem engin merki eru, að lagaskyldu. Í 1. gr. landamerkjalaga, nr. 5, 17. mars 1882, er að vísu ætlast til, að landamerki sjeu sett, en það hefir oft ekki verið gert, og þótt merki hafi verið skráð og hugsuð, þá eru þau oft ekki til, þegar að er gáð; þau hafa aldrei verið til nema á pappírnum. Ætlast er til, að þessi skylda nái og til ítaka. Að öðru leyti er greinin eins og ætlast var til í frv. Yfirleitt er það um brtt. við 1., 2. og 3. gr. að segja, að þær breyta ekki miklu um það, sem nú er í lögum.

Í brtt. við 2. og 4. gr. er ætlast til, að hreppstjórar hafi eftirlit með því, að merki sjeu sett. En eftir gildandi lögum er eftirlitið með, að merki sjeu gerð og merkjalýsingar rjettar, falið sýslumönnum. Það var einróma álit nefndarinnar, að þetta hafi verið fráleitt, vegna aðstöðu sýslumanna og ókunnugleika. Aftur standa hreppstjórar vel að vígi með að hafa eftirlitið á hendi. Er því sjálfsagt að fela þeim það.

Helstu breytingar, sem frv. og brtt. nefndarinnar gera á núgildandi lögum, eru tilgreindar í nefndarálitinu, og get jeg látið mjer nægja að vísa til þess. Samt skal jeg bæta því við, að jeg geri ráð fyrir, að frv. geti enn tekið einhverjum bótum, og verður góðgjörnum tillögum hv. deildarmanna tekið með þökkum af nefndinni.