04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

107. mál, merkjalög

Þórarinn Jónsson:

Jeg er þakklátur meiri hluta nefndarinnar fyrir það, að hann hefir tekið vel í málið, þótt hann hafi fundið ástæðu til að gera athugasemdir við frv. í ýmsum greinum. En mjer þykir leitt, að minni hlutinn hefir ekki sjeð sjer fært að koma með neina breytingu, sem gæti bjargað frv. við, þótt nál. þess hlutans komi miklu seinna fram en nál. og brtt. meiri hlutans. Minni hlutinn leggur til að frv. verði felt, og þó er það ekki nema eitt atriði, sem hann telur sjerstaklega þörf á að breyta. Það er einkennilegt að leggja til, að frv. sje felt alveg, en viðurkenna þó, að þörf sje á mörgum ákvæðum, sem í því standa. Allir nefndarmenn eru sammála um það, að ágreiningur um merki eigi sjer stað og að þörf sje á að ráða bót á honum. Frv. ætlast til, að horfið sje frá því, að sáttastefnu þurfi til að byrja þess konar mál. Þetta ákvæði er ekki nýtt. Það er til í lögum um mæling og skrásetning lóða og landa í Reykjavík. Þar er ákveðið, að öllum þrætum um merki skuli stefnt fyrir merkjadóm. Þessu ákvæði er fylgt í þessu frv. Menn kynoka sjer við að stefna grönnum sínum, þótt ágreiningur sje um merkin, og þess vegna helst ágreiningurinn óútkljáður mann fram af manni. Ágreiningur um merki er einmitt nokkuð mikill, einkum hjer á Suðurlandi, og menn eru spentir fyrir, að þetta mál komist fram. Margt er líka, sem mælir með því. Í lögum um fasteignamat er gert ráð fyrir, að þrætulönd skuli metin sjer. En hver á þá að borga skatt af þeim löndum, sem enginn veit hver á? Þetta er eitt atriði, sem mælir með því, að frumvarpið sje ekki tafið um of. Háttv. frsm. minni hlutans (St. St.) kvað frv. baka mönnum svo mikið umstang. Það er alveg rjett, að fyrirhöfnin er nokkuð mikil fyrir sýslumenn með skrásetning landamerkja. En aðalfyrirhöfnin liggur þó á hreppstjórum, að fá afgerð merkin, og í mjög mörgum tilfellum myndu þeir jafna þræturnar. Jeg hygg, að hægt væri að breyta frv. til 3. umr., ef það þykir þess vert, að það eigi fram að ganga, og lögfræðingarnir telja ekkert því til fyrirstöðu frá rjettarfarslegri hlið, og má því vænta stuðnings frá þeim í því efni.

Jeg skal þá fara örfáum orðum um brtt. meiri hluta nefndarinnar; þær eru að mestu orðabreytingar, svo að efnisbreytingar verða ekki taldar nema 3.

Við 2. gr. leggur nefndin það til, að hreppstjórar, hverjir í sínum hreppum, hafi eftirlit með því, að sett sjeu glögg merki. Þetta má telja eigi lítilsvert eftirlit, og alllíklegt, að hreppstjórum þyki sjer eigi lítið íþyngt með því, þar sem það er nú svo, að ruglingur getur komið upp um merki víðar en þar, sem ágreiningur er nú, t. d. við ábúendaskifti á jörðum, þegar girðingar eru gerðar á merkjum o. fl.

Önnur efnisbreytingin er sú að leggja dagsektir við vanrækslu á að senda merkjalýsingar. Þetta getur haft nokkra þýðingu, en einhlítt er þetta þó ekki, þótt ekki vilji jeg gera það að kappsmáli, en naumast á það að spilla.

Þriðja efnisbreytingin lýtur að því að haga útnefningu dómsmanna eins og í gömlu lögunum. Það má vera, að þetta sje hentugra, en jeg held nú samt, að á sama standi um það, og skal ekki gera þetta að umtalsefni. En líta má á það, að þó að ákvæðum frv. sje fylgt, geta menn altaf, eftir almennum lögum, fengið þann úr dómi, sem vilhallur verður talinn. Að öðru leyti er um orðabreytingar að ræða, sem ekki skifta máli.

En fleiri breytingar gætu nú komið hjer til greina, t. d. á því, að málsrekstur fari fram á undan merkjagöngu, Þetta ætti að vera á valdi dómsins, því að það getur verið nauðsynlegt að ganga á merkin áður en merkjadómurinn fer fram.

Fleiri breytingar gætu einnig verið nauðsynlegar, en jeg vænti nú, að fá mætti góða menn til liðs við samning þeirra brtt. til 3. umr., og býst við, að minni hluti geti fallist á það að vinna að þessu, í stað þess að leggja til að drepa málið fyrir svo veigalitla ástæðu, sem fyrir því er færð, ef ekki eru fleiri ástæður fyrir hendi til þess að fella frv. heldur en fram hafa komið.

Jeg hefi áður bent á það að erfitt sje að eiga við þrætulöndin; enginn geti girt þau; út af þessu hafa oft orðið vandræði, þegar menn hafa girt lönd sín. En nú eru líkur til þess, að eftir stríðið geri menn enn meira að girðingum en áður, þar sem sterkar líkur eru fyrir því, að girðingarefni verði þá enn ódýrara en áður hefir verið. Væri það þá ekki einskis vert að hafa föst merki milli jarða, þar sem ágreiningur hefir verið.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um málið að sinni, en vænti, að það fái að ganga til 3. umr. og verði þá góðir menn til þess að laga frv. með hv. nefnd, sem er nokkur vorkunn að því leyti, að enginn lögfræðingur á þar sæti.