06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (2788)

107. mál, merkjalög

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Þessi frestur á 2. umr. þessa máls hefir orðið til þess, að nú hefir gengið saman með meiri og minni hluta landbúnaðarnefndar um helstu ágreiningsatriðin.

Þetta kemur sjerstaklega fram á þgskj. 799. Og er það að mestu leyti fólgið í nýrri breytingu við 3. gr. frv. Þessi breyting gengur í þá átt að undanskilja að endurtaka allar merkjalýsingar, sem sjeu ágreiningslausar og áður þinglesnar. — Þetta er svo stórvægileg breyting, að hún ætti að geta numið burt mikið af þeim andmælum, sem þetta frv. mætti við fyrri umr. málsins. Að öðru leyti er hjer önnur ný brtt. á sama þgskj., við 4. gr. frv. á þgskj. 534. Þetta vonum við að nægi til þess, að þetta mál nái fram að ganga nú. Eins og jeg gat um, við fyrri umr. þessa máls, þá er aðalbreytingin frá gömlu lögunum sú, að þar, sem ágreiningur er eða ekki hefir verið gerð merkjalýsing, þá sje haft eftirlit með því, og að framkvæmdir við þetta eftirlit verði fengnar í hendur hreppstjóra, í staðinn fyrir sýslumanni, eins og er í lögunum frá 1882. Það er sem sje skoðun okkar nefndarmanna, að hreppstjórar standi oft betur að vígi en sýslumenn, sakir kunnugleika síns, til þess að jafna ágreining, sem kann að verða, og má ske er ekki svo mikilsverður, að það taki því að leggja út í málaferli fyrir þá sök. Að öðru leyti heldur nefndin fast við það álit sitt, að þar, sem. slíkur ágreiningur verður ekki útkljáður heima fyrir með þessu móti, þá beri að leiða hann til lykta á þann veg, að hlutaðeigandi sýslumaður höfði mál. — Það kann nú að vera, að mönnum þyki þetta nokkuð viðurhlutamikið. En jeg býst við, að ef brtt. á þgskj. 799 og frv .breytingin á þgskj. 534 verður samþykt, þá mundi það verða fátt, sem landamerkjadómur þyrfti að skera úr. Jeg vona, að hv. deild sjái, hve mikil nauðsyn ber til að lagfæra það, sem hjer hefir verið ábótavant, og að það sje gert með þessu, án þess að rjettur nokkurs manns sje fyrir borð borinn. Okkur nefndarmönnunum vanst ekki tími til að ráðfæra okkur við bestu menn deildarinnar um hvert einstakt atriði; það kemur mjer því ekki á óvart, þótt áfátt sje í einhverju, og að einhver kunni að koma með aðfinslur. En þess vegna væri æskilegt, að hv. þm. leiðrjettu góðfúslega þá smágalla, sem þeir fyndu, til þess að flýta fyrir málinu. Jeg vona, að stórgallar sjeu hjer engir á. En það sem ver kann að fara, mætti sem best lagfæra til 3. umr. málsins, því að hjer sje um talsvert nauðsynlegt mál að ræða efast jeg ekki um.