06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2789)

107. mál, merkjalög

Pjetur Jónsson :

Jeg fann að því við fyrri umræðu þessa máls, að það væri ekki fyllilega undirbúið, eins og hefir átt sjer stað um fleiri mál, er hafa komið hjer fram. En auk þess hefir verið svo mikil, málakássa hjer; á þinginu, og sumt stórmál, að hvorki mjer nje öðrum hefir unnist tími til að athuga þetta mál að neinu gagni. Svo hefir það og legið í nefnd í langan tíma. Nú loks þegar nefndin lætur álit sitt uppi, verður ekki annað sagt en að hún hefir ekki enn komist að fastri niðurstöðu. Jeg sje mjer því ekki fært að greiða atkvæði, um þetta mál nú. Ástæðan til þess er sjerstaklega sú, að mjer er ekki nægilega kunnugt um, í hverju merkjalögunum er ábótavant.

Það þyrftu að liggja fyrir skýrslur um það, hve mikið vantar á, að lögin sjeu komin í framkvæmd, og hvað einkum stendur á. — Nú vill einmitt svo vel til að tækifæri býðst til að fá vitneskju í þessu máli, þar sem jarðamatið er að fara fram. Þá hygg jeg, að það muni, við jarðamatið, koma í ljós, ef ágreiningur er um merki, og jarðamatsmönnum er auðvelt að rannsaka það.

Þetta mál er þannig vaxið, að mínum dómi, að það liggur beinast við að fá það í hendur stjórninni til athugunar. Það er hún sem sjá á um framkvæmdir á þessum lögum. Og svo framarlega, sem þörf er á að breyta lögunum eitthvað, þá á hún hægast með að finna þá galla, sem bæta þarf úr sjerstaklega.

En þetta sull, sem komið hefir frá landbúnaðarnefnd er að mínu áliti óaðgengilegt til atkvæðagreiðslu. Jeg geri það því að tillögu minni, að máli þessu sje samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar vísað til stjórnarinnar.