06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

107. mál, merkjalög

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hafði eiginlega ekki hugsað mjer að blanda mjer inn í umr. um þetta mikilsverða og margbrotna mál. Upptök og fyrstu framkvæmdir að samningu landamerkjalaganna átti Einar heitinn Ásmundsson í Nesi, einn af vitrustu og mentuðustu bændum á þingi. Það var vandað mjög til þessara laga í upphafi, og þau hafa því komið að talsverðu haldi. Fá lög, er snerta landbúnaðinn, hafa verið notuð jafnlengi óbreytt, en hitt skal viðurkent, að nú eru komnir í ljós ýmsir gallar á þessum lögum, og því þörf á endurbótum. Jeg hefi fylgst með þessu máli í mínu hjeraði, og skal jeg játa, að margt er rjett af því, sem hjer hefir fram komið í umr.

En jeg vildi segja nokkur orð út af dagskránni. Það er ekki svo, að jeg hafi tínt upp nje talið hve mörgum málum hefir verið vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá eða þingsályktunum, en þau munu þó orðin nokkuð mörg. Nú er, eftir þessari rökstuddu dagskrá, stjórninni ætlað að leita upplýsinga um málið og leggja svo frv. fyrir næsta reglulegt Alþingi. Jeg held, að sú úrlausn sje ekki heppileg, vegna þess að stjórnin á ekki svo auðvelt með þetta og jeg held, að það sje vandræðaúrlausn af hv. deild að samþykkja þessa dagskrá.

Mjer finst líka varlegt að afgreiða málið til hv. Ed. í því trausti, að hún bæti það. Verði frumv. samþ. hjer í deildinni og gangi til Ed., hygg jeg, að ekki verði tími til að útkljá málið á þessu þingi. Jeg vildi helst skjóta málinu til þeirra áhugamanna, er mest hafa fengist við það hjer í deildinni, og biðja þá að athuga það nánar til næsta þings. En fyrir því mun ekkert form, og hygg jeg þá best, að málið færi ekkert út úr deildinni. Jeg býst sem sje við, að undirbúningur þessa máls heimti það mikið starf af hendi stjórnarinnar, að það verði ekki framkvæmt nema dagskránni sje breytt þannig, að í stað „næsta reglulegt Alþingi“ komi „þegar unt er“.