06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

107. mál, merkjalög

Sigurður Stefánsson:

Jeg hafði ásett mjer að greiða þegjandi atkvæði um þetta mál og greiða atkvæði með því að vísa málinu til stjórnarinnar, því að jeg sje engin tök á að afgreiða þetta mál á þessu þingi, svo illa sem það er undirbúið, en jeg skal ekki fara út í það nú. — Það, sem kom mjer til að standa upp, var það, að jeg heyrði ekki betur en hæstv. atvinnumálaráðherra teldi það vandræðaúrlausn að vísa þessu og öðrum málum til stjórnarinnar. Mjer er það nú spurn, hvert á þingið að snúa sjer með vandamál sín, ef ekki til stjórnarinnar, stjórnarinnar, sem einmitt á að hafa frumkvæðið til allra helstu málanna, sem þingið fjallar um? Ef hún hefir það ekki, þá gegnir hún ekki þeirri skyldu, sem hún hefir á hendur tekist. — Mjer er það spurn, hvers vegna verið var að fjölga ráðherrunum, ef ekki einmitt í þeim tilgangi að hún hefði meiri starfskröftum á að skipa og yrði þar af leiðandi færari um að taka þann þátt í löggjafarstarfinu, sem heimta verður af hverri sæmilegri landsstjórn Þetta var það, sem jeg vildi taka fram, vegna ummæla hæstv. atvinnumálaráðherra. Jeg skal játa, að það er í mínum augum stjórnarfarslegt böl, hvað stjórnin hefir nú upp á síðkastið lítið látið til sín taka um ýms stórmál, sem hver stjórn í þingfrjálsu landi á að sjálfsögðu að hafa frumkvæði til og undirbúa sem rækilegast undir meðferð þingsins. Þess vegna er það, að störf þingsins lenda í svo miklu fálmi og fáti, fyrir þá sök, að ýms stórmál, er það hefir með höndum og stjórnin á að hafa frumkvæði til, koma inn í þingið ókláruð. Það er hörmulegt til þess að vita, að þetta samvinnuleysi milli þingsins og stjórnarinnar skuli fremur vaxa en minka, eftir því sem stjórninni aukast starfskraftar.

Í þessu máli, sem hæstv. atvinnumálaráðherra vill ekki láta vísa til stjórnarinnar, víkur svo við, að hann sjálfur segist, sem betur fer, hafa fylgst ágætlega með, bæði heima og hjer á þinginu, en því undarlegra er það, að hann skuli vilja humma það fram af sjer, þegar kemur til hans kasta sem ráðherra að undirbúa það. Jeg verð að segja það, að hefði jeg verið í sporum hæstv. atvinnumálaráðherra og hefði haft þau orð, sem hann talaði áðan, þá hefði jeg ekki talið mig geta setið lengur í embætti.

Það er nú svo sem ekki heldur svo, að stjórnin sje aðstoðarlaus í þessu máli, fremur en öðrum svipuðum málum. Henni er innan handar að leita álits Búnaðarfjelags Íslands, og auk þess á hún aðgang að öllum sýslumönnum, sýslunefndum og hreppsnefndum um alt land.

Stjórn þessa lands ljet sjer áður sæma að leita álits embættismanna landsins um lagasetningar, og gaf svo út tilskipanir sínar, og voru þær oft betri en mörg þau lög, sem nú eru búin til af Alþingi.

Jeg verð að segja það, að mjer fellur illa að heyra slík ummæli sem þessi koma frá stjórninni.