23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (B. Sv.):

Það á víst ekki síður við um brtt. samvinnunefndar samgöngumála heldur en ýmsar aðrar tillögur, sem hjer liggja fyrir, að þær sjeu allmjög sniðnar eftir því ástandi, sem nú er, og mætti því með nokkrum sanni kalla þær nokkurs konar dýrtíðartillögur.

Nefndin athugaði samgöngumar á sjó eða með ströndum fram, bæði með tilliti til þeirra bæna, sem komið höfðu frá einstökum mönnum og hjeruðum og eftir tillögum stjórnarinnar.

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. nefndarinnar, en vísa að öðru leyti til nál. á þgskj. 487.

Fyrsta brtt. við lið C. I., þess efnis, að niður falli fjárveiting sú, 75 þús. kr., sem ætluð er til strandferða. Sú till. var gerð vegna þeirrar ákvörðunar síðasta þings, að stjórnin skyldi kaupa eimskip til vöruflutninga með ströndum fram. Í þessum lögum er að vísu gert ráð fyrir því, að öll útgjöld til skipsins sjeu tekin upp í fjárlögin, enda renni allar tekjur af því í landssjóð. En þar sem engin áætlun er til um það, hvernig þetta skip muni bera sig, taldi nefndin óþarft og út í bláinn að áætla nokkra upphæð til þess. Útgjöldin til skipsins mundu þá að sjálfsögðu vera talin með í 22. gr. fjárlaganna. Stjórnin kveðst hafa látið fjárhæðina standa óbreytta, eins og í síðustu fjárlögum, en þótt svo væri hagað meðan samið var við eitthvert fjelag um strandferðirnar, og tillagið því fastskorðað, þá er alt öðru máli að gegna nú, og því taldi nefndin rjettast að fella liðinn burt.

Við styrkinn til Eimskipafjelagsins hefir nefndin ekki gert neina brtt., enda mun það vera samningum bundið, að fjelagið annist samgöngur fyrir þá fjárhæð. Þar á móti er brtt. við C. III, um samgöngur á flóum, fjörðum og vötnum. Nefndin hefir orðið að gera þar brtt., eins og skýrt er frá í nál., bæði vegna þess, að bæta þurfti við bátum, og eins af hinu, að kostnaðurinn við að gera út báta til flutninga verður miklu meiri en áætlað var þegar stjórnin samdi fjárlagafrv. Nefndin hefir því fært tillagið til flestra bátanna upp um þriðjung og sumstaðar nokkru meira. Hins vegar færist þessi kostnaður að sjálfsögðu niður, ef stríðinu linnir, og kemur þá til kasta aukaþingsins að ári að gera þar um nýjar tillögur.

Viðvíkjandi einstökum liðum er það að segja, að nefndin áætlar til bátaferða á Faxaflóa 18000 kr., en stjórnin hafði áætlað 12000. Hún hafði ætlað »Ingólf« til þeirra ferða, en nú er komið skjal frá stjórn fjelagsins, þar sem hún fer fram á stórmikla uppbót á kolaverði fyrir yfirstandandi ár og gerir ráð fyrir því að geta ekki tekið að sjer ferðir næsta ár, nema með gífurlegri hækkun á styrk; vill þó helst ekki semja um ferðir, en býður stjórninni bátinn til kaups. En þegar á það er litið, að útgerðarfjelag Faxaflóabátsins hefir ekki getað haldið samninga um ferðir þetta ár, og kol hækka óðfluga í verði, svo að þau geta orðið enn miklu dýrari næsta ár, þá telur nefndin næsta óráðlegt að kaupa »Ingólf« að svo stöddu, og dylst henni ekki, að ferðirnar yrðu miklu ódýrari á vjelbátum, því að verðhækkun á steinolíu er miklu minni en á kolum. Nefndin leggur því til að verja liðnum »til ferða á Faxaflóa«, en ekki »til Faxaflóabáts«, og er ætlast til, að stjórnin verji fjenu sem hagkvæmlegast. »Ingólfur« hefir lagt niður ferðir allar til Keflavíkur og Garðs síðan í vor, enda hefir komið umkvörtun frá íbúum Gerðahrepps, sem hvorki hafa fengið póst nje annan varning fluttan til sín um alllangt skeið, og því farið fram á að fá sjerstaka fjárveitingu til flutninga milli Reykjavíkur og Gerða. Nefndin sá sjer ekki fært að taka þá beiðni til greina sjer í lagi, en treystir því, að stjórnin sjái borgið hag Gerðhreppinga og Keflvíkinga, þegar hún semur um bátaferðir hjer við flóann fyrir næsta ár. — Þess má geta, að stjórn Faxaflóabátsins bar það fyrir sig, að lítill flutningur hefði verið sunnan með sjó, svo að hvergi nærri svaraði kostnaði að fara þessar ferðir, en íbúar Gerðahrepps telja flutningaþörfina mjög mikla.

Á sama hátt hefir nefndin hækkað styrkinn til bátaferða á Breiðafirði úr 12000 kr., sem stjórnin lagði til að veittar yrðu, upp í 18000 kr. Þar eru tveir bátar til ferða. Annar er »Breiðafjarðarbáturinn«, sem stundum gengur til Reykjavíkur, hinn gengur milli Flateyjar og Barðastrandar. Nú hefir komið brtt. frá fjárveitinganefnd um að orða liðinn þannig, að alt fjeð verði veitt til »h/f Breiðafjarðarbáturinn«, en á það getur samgöngumálanefndin ekki fallist, því að það hefir ekki gengið sem best hingað til með samninga milli fjelagsins og eiganda Barðastrandarbátsins, og telur nefndin því rjettara, að stjórnin skeri úr, hvernig fjenu verði best varið, svo að engin deila þurfi að rísa milli manna þar vestra út af því. Þó skiftir þetta að vísu ekki miklu máli.

Um styrk til ferða á Ísafjarðardjúpi læt jeg nægja að vísa til álits nefndarinnar.

Þá vill nefndin veita til bátsferða á Húnaflóa 20000 kr., því að þar er mikil þörf á sjerstökum bát. Hafnir eru þar mjög margar, og tafsamt fyrir strandferðaskip að fara inn á þær allar; verður því ódýrara að láta sjerstakan bát annast þær ferðir. Það er ætlast til, að bátur sá gangi til Ísafjarðar annað veifið og til Sauðárkróks, ef þörf krefur. Um það er stjórninni ætlað að semja áætlun, í samráði við hjeraðsbúa.

Þá leggur nefndin til, að til Langanesbáts, sem gangi lengst milli Sauðárkróks og Seyðisfjarðar, verði veittar 18000 kr. Hann kemur í staðinn fyrir »Eyjafjarðarbát« með 3500 kr., sem stjórnin hafði ákveðið og ekki átti að fara lengra en til Húsavíkur. Slíkar bátsferðir væru allsendis ónógar. Norðausturhluti landsins færi þá með öllu á mis við bátaferðir, og er það því fjarstæðara og skaðlegra fyrir þá sök, að strandferðaskip og millilandaskip koma mjög sjaldan á hafnir þessa landshluta. Hafa Norður-Þingeyingar fengið hart að kenna á samgönguleysinu síðan styrjöldin hófst, jafnvel svo hvað eftir annað, að þeir hafa ekki getað komið frá sjer haustvörum sínum, og hefir því kjöt, er ætlað var til útflutnings, legið allan veturinn og beðið eftir skipi. Má nærri geta, hvílíkt stórtjón af þessu stafar, og væri það alls óhæfilegt að láta hag þessara hjeraða lengur svo fyrir róða ganga. Nefndin ætlast til, að bátur þessi gangi alt til Seyðisfjarðar austur og taki þannig að sjer að bæta úr samgönguþörfinni um nyrðra hluta Austfjarða. Auk þess er nokkur þörf á samgöngum milli Eyjafjarðar og Seyðisfjarðar um hásumarið, því að Seyðfirðingar hafa eigi alllítil skifti við Siglufjörð um síldveiðitímann, en hins vegar er það á valdi stjórnarinnar, hvort hún lætur bátinn ganga til Seyðisfjarðar í hverri ferð, einnig á öðrum tímum árs, eða þá í sumum ferðum ekki lengra austur en til Þórshafnar, og mundi það rjettara. Til þess, að Eyfirðingar verði ekki fyrir borð bornir, ætlast nefndin til, að báturinn geti stöku sinnum farið sjerstakar aukaferðir um fjörðinn, og telur víst, að það verði nægilegt, því fremur sem Eyfirðingar eiga góðan skipakost sjálfir, og miklar ferðir eru jafnan um fjörðinn fram og aftur. Nefndin ætlar bátnum að fara lengst vestur til Sauðárkróks, en með því að flutningsþörf er ekki mikil að staðaldri á þeim hluta leiðarinnar, þá mundi nægja, að þangað væru farnar svo sem þrjár ferðir á ári, og treystum vjer stjórninni einnig til þess að ráða skynsamlega fram úr um áætlun þessara ferða.

Eins og kunnugt er voru veittar 20000 krónur til mótorbátsferða fyrir Austfjörðum, frá Langanesi til Hornafjarðar, í fjáraukalögum fyrir árið 1917. Nú leggur nefndin til, að þessu verði breytt þannig, að bátur þessi gangi ekki lengra norður en á Seyðisfjörð, því að hafnir eru margar á suðurfjörðunum, og auk þess verður bátur þessi að annast Hornafjörð, en það er þjettur ábaggi, því að þar er höfn torsótt, svo að oft verður að sæta færi til að komast þangað inn. Báturinn mun því hafa nóg að gera, þótt hann gangi ekki lengra norður en á Seyðisfjörð, ekki síst þar sem honum er ætlað að fara öðru hvoru til Reykjavíkur. Viðvíkjandi Langanesbátnum er komin brtt. frá háttv. þm. Eyfirðinga þess efnis, að hann skuli ekki ganga lengra austur en til Þórshafnar. En eins og jeg hefi tekið fram þá er óhagkvæmt að slíta ferðir bátanna sundur um Langanes, og hagkvæmara, að bátar þessir hafi endastöð á Seyðisfirði. Samgöngumálanefndin hefir því ekki getað fallist á brtt. þeirra þm. Eyf.

Um Skaftfellingabát er allítarlega ritað í áliti samgöngumálanefndar, og með því að engar brtt. hafa komið fram við þann lið, sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um hann.

Um ferðir milli Vestmannaeyja og Rangársands er það að segja, að við Rangársand eru hafnleysur svo miklar, að sæta verður færi að lenda þar, og verður því að hafa sjerstakan bát til þeirra ferða, enda er ekki hægt að hafa fasta áætlun á milli þeirra staða. Nefndin getur því ekki fallist á, að styrkur falli niður til þessa báts, jafnvel þótt allríflega sje veitt til Skaftfellingabáts.

Þá hefir stjórnin ætlað 300 kr. til báts, sem.gengi milli Patreksfjarðar og Rauðasands. Nefndinni hefir þótt þetta oflágt og leggur því til, að styrkur þessi verði hækkaður upp í 800 kr., en fjárveitinganefnd þykir styrkurinn óþarfur og vill fella hann burt með öllu. Á það getur samgöngumálanefnd ekki fallist, því að þarna hefir 12—13 smálesta bátur verið í förum við og við alt sumarið og haft nóg að gera. Hann þarf að koma við á mörgum höfnum, þótt smáar sjeu, og þar að auki fer hann á Tálknafjörð. Á Rauðasandi er og allmikið útræði og sækja þangað menn úr öðrum sveitum. Báturinn kemur því mörgum að notum, og þegar á það er litið, að hann þarf að sækja út fyrir Látraröst, og verður að sæta færi til þess að lenda við Rauðasand, þá virðist tillagið ekki mega lægra vera, eins og nú horfir, heldur en samgöngumálanefndin hefir lagt til. Því síður kemur til mála að fella styrk þennan með öllu.

Stjórnin hafði áætlað 300 kr. til bátsins á Lagarfljóti, en þm. Múlasýslna fóru fram á, að sá styrkur yrði hækkaður, og hefir nefndin lagt til, að styrkurinn yrði ,800 kr.

Þá hefir stjórnin ætlað 400 kr. til Hvalfjarðarbáts. Það voru mjög skiftar skoðanir í samgöngumálanefndinni, hvort þessi styrkur ætti að haldast, en það varð þó ofan á, að rjett væri, að hann stæði. En nú hefir fjárveitinganefndin lagt til, að hann yrði látinn falla, vegna þess, að fje er veitt til bátaferða á Faxaflóa. En af því að sjerstaklega stendur á með Hvalfjörð, sem er afskektur, þykir samgöngumálanefndinni ekki rjett að fella styrkinn. Aftur getur hún ekki fallist á, að hann verði hækkaður, eins og brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) fer fram á.

Stjórnin ætlast til, að veittar verði 600. kr. til vjelbátsferða á Hvítá, en nefndin hefir ekki getað fengið þær upplýsingar, að sá styrkur sje notaður neitt að ráði, og hefði því verið skapi næst að fella hann niður. En vegna þess, að ferðirnar geta verið gagnlegar þeim, sem búa neðarlega við ána, einkum á meðan ekki er komin akbraut um neðanverðan Borgarfjörð, leggur nefndin til, að styrkurinn verði látinn halda sjer, og getur ekki fallist á þá brtt. fjárveitinganefndar, að hann verði feldur með öllu. En samgöngumálanefnd getur ekki heldur fallist á brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.), að styrkurinn verði hækkaður, þar sem báturinn er ekki mikið notaður til vöruflutninga nje kemur mörgum að haldi.

Eins og sjá má á nál. eru till. samgöngumálanefndarinnar að meira og minna leyti bráðabirgðaráðstafanir, og þótt ákveðið sje, að fjárlögin gildi fyrir bæði árin, þykir nefndinni sennilegt, að Alþingi, sem kallað verður saman að ári, geri breytingar á fyrirkomulagi ferða, eða felli styrk til sumra þessara báta, ef friður kynni að verða kominn á í heiminum og úr greiddist um siglingar til landsins og betri strandferðir.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta mál að sinni.