14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2808)

115. mál, tollalög fyrir Ísland

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Eins og sjá má á nál. á þgskj. 411 leggur fjárhagsnefnd til að fella þetta frv. Þótt nefndin leggi þetta til, þá er ekki þar með sagt, að nefndin hafi litið svo á, að tollur þessi væri svo rjettlátur, að niðurfelling á honum að meira eða minna leyti væri ekki æskileg. Álit nefndarinnar mun miklu heldur vera hið gagnstæða, enda lítillega á það bent í nál. Kemur það fram í nál., að nefndin lítur ekki svo á. En hitt er annað mál, að ef þetta frv. næði fram að ganga, þá misti landssjóður mjög miklar tekjur, svo miklar, að það gæti haft alvarlegar afleiðingar, ef ekkert væri sett í staðinn. En þess treystir nefndin sjer ekki til að benda á tekjuauka, er svaraði til hins mikla tekjumissis, er hlyti að verða afleiðing frv., ef samþ. væri. Eins og bent er á í nál. þá mundi hallinn nema 400 þús. króna á næsta fjárhagstímabili, ef gera mætti ráð fyrir svipuðum innflutningi á sykri og árið 1915. Það mundi því vandfundin leið til að afla tekna fyrir landssjóðinn, er svöruðu til þess halla, er hann yrði fyrir, ef frv yrði að lögum. Þótt æskilegt væri að geta lækkað sykurtollinn, eða jafnvel afnumið hann með öllu, þá verður því ekki komið við nema með því að endurskoða þá um leið alla tollalöggjöf landsins, en slíkt er svo mikið starf, að fjárhagsnefnd mundi ekki vinnast tími til þess að þessu sinni. Jeg tók það áður fram, að hallinn, sem landssjóður yrði fyrir, ef frv. yrði að lögum, mundi nema um 400 þús. kr. Þetta er að vísu miðað við aðflutninga árið 1915, og ekki víst, að á næsta fjárhagstímabili flytjist eins mikið af sykri hingað, en kæmist aðflutningur aftur í lag á fjárhagstímabilinu, þá mundi hallinn verða miklu meiri. Það mun því vera nær hófi að segja, að hjer sje ekki of langt farið að gera tekjumissi 400 þús. Jeg þykist svo ekki þurfa að orðlengja meir um þetta að sinni, en mun svara fyrir hönd nefndarinnar, ef hv. flm. (J. B.) sjer ástæðu til að finna að gerðum hennar. Vil þó að endingu taka það fram, að nefndin telur mjög varlega að því farandi að koma með frv., er gera mikinn glundroða í tollllöggjöf landsins.