14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2819)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Flm. (Björn Stefánsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í máli þessu, því að það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir. Þó skal jeg leyfa mjer að gefa væntanlegri nefnd í málinu nokkrar upplýsingar.

Ábúendurnir sóttu um kaup á jörðinni 1912, en var synjað um það. Býst jeg við, að synjunin hafi bygst á því, að óskift land er milli jarðanna, og af því, að silfurbergsnámur eru í Helgustaðalandi. Jeg hefi að vísu ekki sjeð synjunarástæðurnar, en geri ráð fyrir, að stjórnin hafi haldið, að óhægra mundi fyrir landið að hagnýta sjer silfurbergsnámurnar væri jörðin seld. Nú er í frv. girt fyrir þetta, með því að jafnframt því, sem náman er undanskilin sölunni og silfurberg það, sem finnast kynni á öðrum stöðum í landeign jarða þessara, þá er og áskilinn endurgjaldslaus afnotarjettur lands og vatnsafls eftir þörfum, til að vinna námuna, nema ef spjöll verða á túni, engjum eða mannvirkjum jarðanna, vegna námugraftarins. Eins og til hagar mun varla koma fyrir, að spjöll verði á engjum vegna námugraftarins, og hefði því í raun rjettri ekki þurft að nefna þær. Verði spjöll á mannvirkjum ábúandans, þarf jafnt að bæta þau, hvort sem landssjóður á jörðina eða einstakir menn, Um spjöll á túnum er líkt að segja; nemi þau nokkru, yrði að lækka jarðarafgjaldið, ef landssjóður á jörðina. Reyndar þarf varla að gera ráð fyrir þeim spjöllum, því að náman liggur langt frá bæ. Það getur líka verið, að landsstjórninni hafi þótt virðing jarðanna oflág, og í þá á átt hnigu ummæli umboðsmanns, að svo mundi vera. Þá voru Helgustaðir ekki virtir nema á kr. 1499,84, en umboðsmaður taldi hæfilegt að selja hana fyrir 2600—2700 kr. Nefndin, sem jeg vænti að fái mál þetta til meðferðar, getur fengið lánuð skjöl þau, er jeg hefi fengið hjá stjórnarráðinu, og benda þau í þá átt, að hæfilegt muni að selja jörðina líkt og umboðsmaður tók fram, á 2600—2700 kr., í samanburði við aðrar þjóðjarðir, sem seldar hafa verið. Jeg hefi þó farið töluvert lengra, og legg til, að hún sje seld á 3500 kr. Byggi jeg það á því, að undirmatsmenn í Suður-Múlasýslu hafa þegar metið jörðina þetta.

Þegar frv. stjórnarinnar, sem nú hefir verið felt, um frestun á sölu þjóðjarða, var hjer á ferðum, ljet jeg í ljós, að jeg væri yfirleitt ekki hlyntur þjóðjarðasölu, en jeg tók það þó líka fram, að það væri ekkert aðalatriði fyrir mjer, heldur hitt, að haft væri í þessu máli fylsta samræmi og sanngirni. Um fram alt álít jeg, að þjóðfjelagið megi ekki beita einstaklingana. misrjetti. Þarna fyrir austan hafa jarðir landssjóðs verið seldar á báða bóga við Helgustaði, en ábúandanum þar neitað um kaup. Sumar þær jarðir hefði miklu síður átt að selja. Jeg skal svo ekki þreyta hv. deild lengur, en skal rökstyðja mál mitt, ef mælt verður móti. Leyfi jeg mjer svo að stinga upp á, að málið gangi til landbúnaðarnefndar, að lokinni þessari umræðu.