16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

132. mál, kaup í landaurum

Bjarni Jónsson:

það er ekki mikil spurning, hvort jeg er ánægður eða ekki við hv. nefnd. Jeg er reyndar ekki eins ánægður með gerðir hennar einsog hv. frsm. (G.Sv.) virtist ætla, en það gleður mig þó, að þetta mál fær betri undirtektir en síðast, er jeg bar það fram, með samskonar frv. hjer .á þingi. Mjer finst, að hv. nefnd hafi ekki tekið það til greina, að aldrei hefir verið svo mikil þörf þess sem nú, að verkamönnum hins íslenska ríkis væri reiknað kaup í landaurum, sökum hins mikla verðfalls, sem orðið er á peningum.

Fyrir þessa þjóð, sem reiknað hefir í landaurum alla tíð, ætti ekki að vera vandasamt að leiða þetta í lög, án mikils undirbúnings.

Ef tekin eru laun og reiknuð út eftir gildandi verðlagsskrá, fer sá reikningur ekki fjarri sanngirni. 3000 kr. laun t. d. væru þá orðin 6000 kr. (G. Sv.: Eða 7000). Já, 3000—7000, en eftir nákvæmri skýrslu, frá matvælahagstofu Íslands hefi jeg sannað það, í öðru máli, sem var hjer á ferðinni, að þær lífsnauðsynjar, sem áður mátti kaupa fyrir 3000 kr., kosta nú yfir 7000, Þetta kemur því alveg heim við verðlagsskrána, og hún fellur saman við það, sem á sjer stað. Það ætti því ekki að kosta okkur Íslendinga, sem höfum reiknað í landaurum frá ómunatíð, mikið erfiði eða undirbúning að breyta til í þessa átt.

Það er annars undarlegt, að það vilja engir vera mjer sammála í svona málum, nema Danir. Jeg bar t. d. á þingi 1915 fram tillögu um, að landssjóður gyldi nokkuð af verðhækkuninni á helstu nauðsynjavöru. Þá vildu engir vera mjer sammála, en nú hafa Danir og fleiri þjóðir gert það.

Jeg sá nýlega í grein úr dönsku blaði, að það hafði verið til umræðu á þingi Dana, að laun embættismanna yrðu ákveðin þannig, að þau væru færanleg eða hreyfanleg, eins og þeir kalla það, á svipaðan hátt og preststekjur, sem goldnar eru í korni og smjöri, en Danir eru ekki kunnugir landaurareikningi eins og við. Það þarf ekki að tala um undirbúning til þess, að þau yrðu rjett reiknuð hjá okkur á þennan hátt, því að það ár, sem launin voru sett var miðað við gildi peninga það ár, eða meðalverð allra meðalverða það ár, sem löggjöfin ákvað launin. Þetta er því ekki að breyta launalögunum, því að þau eru hin sömu, en það er gjaldmiðillinn, sem er breyttur, og löggjafanum hefði aldrei dottið í hug að ákveða launin eins og hann gerði, ef honum hefði dottið í hug, að slík breyting yrði á gjaldeyri, sem nú er komið á daginn. Þetta þarf því ekki undirbúning, en það þarf undirbúning að semja nýja verðlagsskrá. En þótt ýmsir gallar sjeu á gildandi verðlagsskrá, þá er þó meðalverð allra meðalverða ekki fjarri sanni. Þegar menn sjá, að þessar gömlu reglur falla saman við þarfir nútímans, er auðsjeð, að það er ekki hættulegt að samþykkja þetta.

Jeg býst ekki við, að þetta hefði samþykt, því að það er eins og menn hafi ekki hug til að stíga þau spor, sem allra sjálfsögðust eru og allir vita, að eru rjett.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið meira að sinni. Jeg vænti því góðs í framtíðinni, en mjer þykir það leitt, að þingið skuli ekki fallast á það í nútíðinni, til að forðast alt rifrildi um launamálið á næstu þingum. Ef menn vildu samþykkja þetta frv. mitt nú, væri þar með stungið upp í og sett stífla fyrir það þvarg, sem annars verður á næstu þingum, því að ef kaupið væri reiknað í landaurum, þyrfti aldrei að veita neina uppbót.