14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

136. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi áður lýst yfir því á þessu þingi, að jeg telji mjög óheppilegt að vera altaf að breyta bannlögunum. Jeg gerði það í sambandi við annað frv., sem fór fram á óverulegar breytingar á bannlögunum, sem þó hefðu kann ske getað orðið lítið eitt til bóta, sumar hverjar. Jeg tel það eitt rjett, að lofa bannlögunum nú að sýna sig um lengri tíma. Að mínu áliti má vel nota þau eins og þau eru. Það eina, sem vantar, er nógu kröftugt eftirlit. Það er eftirlitið, sem á að bæta, en ekki lögin. Þó virðist mjer sem margir, sem frá upphafi hafa verið á móti bannlögunum, hafi reynt eftir mætti að hindra, að eftirlitið væri aukið. .

Þetta frv. er svo fráleitt, að deildin ætti ekki að tefja sig á að láta það ganga lengra. Þeir, sem fylgja bannlögunum, ættu að fella það þegar í stað. Annara er jeg vanur því að leggja til, að mál sjeu athuguð, þótt jeg sje þeim mótfallinn, en þetta mál er svo vaxið, að jeg hika ekki við að mælast til, að deildin vísi því strax frá. Öllum, sem eru hlyntir bannlögunum, ætti að vera ljóst, að þetta er ekki fær vegur. Enda gægist það fram í ástæðunum fyrir frv., að ekki er ætlast til, að hjer við sitji. Þar stendur: „Rjettur manna er hjer því nokkuð rýmkaður“. Eftir því er ætlast til, að þetta verði fyrsta sporið í áttina til að afnema bannlögin með öllu. Enda myndi svo verða. Það ættu allir að verða mjer sammála um, að miklu verra myndi að gæta þessara laga en sjálfra bannlaganna. Því er ekki saman að jafna. Þar skjátlast flutningsmanni (J. J.), er hann heldur, að skaðræðisdrykkir mundu hverfa úr sögunni, ef ljettari vín væru leyfð. Svo mundi ekki verða. Þeir eru jafnvel druknir þar, sem sterk vín eru leyfð.

Jafnvel þótt ekki þurfi að efast um, að þetta mál sje af góðum hug fram borið, þá er það skylda allra, sem eru hlyntir bannlögunum, að fella það strax. Jeg sje

ekki ástæðu til að fara að halda neina bindindisræðu; þetta mál er svo margrætt, að ekki er vert að tefja tímann á því. Jeg legg til, að frv. verði felt umsvifalaust.