16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

156. mál, samábyrgðin

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Við 1. umr. þessa máls gerði jeg stuttlega grein fyrir, hvers vegna sjávarútvegsnefnd hefði komið með þetta mál, og sömuleiðis fór jeg nokkrum orðum, til skýringar, um breytingar á samábyrgðarlögunum frá 1909. Jeg skal nú í fám orðum fara dálítið nánar út í skýringar á þeim helstu breytingum, sem gerðar hafa verið, og jeg hygg, að helst muni geta valdið ágreiningi. Það blandast engum hugur um, að þetta mál þarf að athuga vel og rækilega, því að sú stofnun, sem hjer er um að ræða, er mjög mikilsverð, og þarf að geta orðið sjálfstæð og styrk. Ef vel ætti að vera, þyrfti hún að geta tekið öll innlend skip í tryggingu, bæði stór og smá, en eins og mönnum er kunnugt, er hún enn að eins fyrir báta og smáskip. Jeg efast ekki um, að það muni eiga langt í land, að hún geti tekið stærri skip, og við höfum ekki sjeð okkur fært, að svo stöddu, að koma með stórvægilegar breytingar í þá átt, en tilgangurinn með þessum breytingum, sem gerðar hafa verið, er sá, að gera stofnunina tryggari og vinsælli. Aðalatriðið í þessum breytingum er að flokka öll skip að opinberri ráðstöfun, en láta það ekki vera tilviljun eða undir áliti stjórnar Samábyrgðarinnar komið, hversu hátt hvert skip skuli trygt undir hámarkinu, 4/5 virðingarverðs. í reyndinni hefir þetta verið handahóf. Skip úr fjarlægum landshlutum hafa verið trygð að meiru eða minnu leyti, alt eftir áliti og geðþótta stjórnar fjelagsins. Hana hefir skort kunnugleika um mörg þeirra, og afleiðingin er auðsæilega, að ónýtir skrokkar hafa verið trygðir eða skip með ljelegum fargögnum, sem svikið hafa, þegar á reyndi, Enginn veit, hve margir skipskaðar, sem stofnunin hefir bætt, muni stafa af þessu, en ætla má, að varasjóður hennar hefði nú náð hámarkinu, 50000 kr., ef flokkun hefði verið fylgt og eftirlit verið betra.

Nú hefir nefndin lagt til, að 1. fl. skip sjeu trygð að 4/5, 2. fl. að 3/3 og 3. fl. að ½, en vel má vera, að nær stofnuninni mætti ganga í þessu, og um það gætu þá brtt. komið.

Við 5. gr. laganna hefir nefndin lagt til talsverðra breytinga. Þar er ákveðin hæsta trygging á einu skipi 15000 kr. og 5000 kr. trygging á veiðarfærum eins skips. Þessar upphæðir höfum við fært upp um 5000 kr. hvora, og virðist mjer það á fullum rökum bygt, þar sem skipin fara ávalt stækkandi og veiðarfæraútbúnaður vex, enda er stjórn fjelagsins okkur sammála í þessu. Ákvæðin í 7 gr. hafa aftur á móti orðið ágreiningsefni milli okkar og stjórnar Samábyrgðarinnar. Þar er ákveðið, að ávalt skuli 2% dregið frá skaðabótafje, og enn fremur, ef skipstjóri væri grunaður eða sekur um að hafa með hirðuleysi eða vísvitandi hirðuleysi valdið skaða á skipi, mætti draga frá alt að ? virðingarverðs. Þessi ákvæði bæði viljum við fella burt, því að okkur virðast þau afskaplega ósanngjörn, sjerstaklega eftirleiðis, þar sem gert er ráð fyrir flokkun á öllum skipum, því að gera verður ráð fyrir, að þeir, sem hafa mikinn hluta skips í sjálfsábyrgð, hafi með því nægilegt aðhald um að velja áreiðanlega menn til skipstjórnar, og því ósanngjarnt, að þeir gjaldi ótrúmensku þeirra.

Í þessu var stjórn Samábyrgðarinnar okkur ekki sammála; hún vildi að vísu fallast á, að færa mætti eitthvað niður úr ? frádráttinn, en ekki fella hann alveg burt. — Þá er lítilvæg breyting í 4. gr. þessa frv., þar sem við gerum ráð fyrir, að burt falli fyrirmæli um sjórjettarpróf í 9. gr. samábyrgðarlaganna, en í staðinn komi, að próf skuli að eins haldin svo framarlega sem stjórn, Samábyrgðarinnar óskar. Þá höfum við enn fremur lagt til, að bætt sje inn í 13. gr., að reikningar stofnunarinnar skuli lagðir fyrir endurskoðunarmenn landsreikninganna, en um það var ekkert ákveðið í lögunum frá 1909. Þá er breyting við 13. gr. laganna frá 1909, þar sem ákveðið var, að landssjóður greiddi stofnuninni 5 þús. kr. árlega fyrstu 5 árin. — Árið 1915 var þessi tími útrunninn, og hefir því stofnunin ekkert fengið frá landssjóði síðastliðin 2 ár. — Þetta finst okkur ná ofskamt, og stofnunin offátæk til að missa styrkinn, og förum við því fram á það í 5. gr. frv., að landssjóður borgi árlega 5 þús. kr., þar til varasjóður er orðinn 50 þús. kr., og þá auðvitað fyrir þau tvö ár, sem fjellu úr 1916—17. Þetta miðar, eins og menn hljóta að sjá, eingöngu að því að styrkja stofnunina, og finst mjer ekki, að landssjóði ætti að vera eftirsjón í þeim peningum, enda verður sú greiðsla eigi langvinn, sennilega 3—4 ár úr þessu. — Loks kemur 6. gr. frv., sem ekki er breyting frá lögunum 1909, heldur viðauki. Játa jeg, að stjórn Samábyrgðarinnar var okkur ekki sammála um hann; hún heldur því fram, að þessi ákvæði sjeu og eigi að vera í reglugerð, en ekki í lögunum. En þessi reglugerðarákvæði hafa verið mjög óvinsæl. Nefndin leggur nú til, að hámark ársiðgjaldsins fyrir trygð skip sje svo sem verið hefir, en jafnframt vill hún ákveða iðgjaldið frá 1. mars til 15. október 6%, hvorttveggja að meðtöldu varasjóðsgjaldi skipsins.

Við lítum svo á, að þessi breyting sje sjálfsögð og sanngjörn, því að undanfarið hefir verið greitt hærra tryggingargjald fyrir sumarmánuðina en vetrarmánuðina; 6% hafa verið heimiluð fyrir tímabilið frá 1. mars til 15. september, en þaðan af hefir gjaldið lækkað, eða frá 15. okt., svo að 9% hafa hæst verið tekin fyrir árstryggingu. Með þessu hefir aðalgjaldið verið lagt á hættuminsta tímann, og þeim óþarflega íþyngt, sem þurftu að tryggja að sumri.

Nú er sumartryggingin færð fram um einn mán., frá 15. sept. til 15. okt., fyrir þessi 6%, og verður vetrartryggingin þá lægri.

Segja má, að þetta geti í reglugerð staðið, en reynslan frá 1910 sýnir, að fult eins tryggilegt muni að lögbinda þetta.

Síðasta breytingin lýtur að því, að breytingarnar skuli færðar inn í meginmál laganna, og þarf ekki um hana að fara frekari orðum.