16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

156. mál, samábyrgðin

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg heft litlu við að bæta, því að þegar hefir verið svarað ýmsum andmælum gegn frv.

Mig furðar á því, hvað menn gera mikið veður út af því, að komið hafi fyrir slys, sem vitanlega hafa stafað af sviksemi eða óvandvirkni skoðunarmanna; mjer finst það alveg óskylt þessu máli og óviðeigandi að fara með slíkar sögur sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) fóru með. Eins og það komi ekki fyrir í öllum löndum og á öllum öldum, að óreiðumenn svíkist undan skyldum sínum; þesskonar er því ekkert nýstárlegt. Reyfarasagan um vjelbátinn, sem var gangvjelarlaus, reiðalaus og stjórafærislaus, kemur ekki þessu máli við. En ef slíkur bátur hefir verið metinn í siglingarfæru ástandi, þá bendir það á sama sem fyrri sagan, sem sje, að um svik hefir verið að ræða, og sannar þess vegna, að flokkun skipa er sjálfsögð.

Fyrir frv. eru 3 leiðir. 1. Sú, sem hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir lagt til, rökstudd dagskrá. 2. Að vísa frv. til 3. umr., í þeim tilgangi að ráða bót á þeim agnúum, sem mönnum kann að þykja á því vera. 3. Að skera frv. alveg niður. Það mundi stjórn Samábyrgðarinnar líklega helst kjósa, því að kyrstöðu virðist hún kunna best.

Jeg skal láta mjer í ljettu rúmi liggja. um afdrif frv. að þessu sinni. Það líður eigi á löngu, að það komi fram aftur í einhverri mynd, ef það nú verður svæft. Um að vísa frv. til stjórnarinnar er það að segja, að sjálfsagt yrði það til bóta málinu, ef hún sinti því, en þegar vjer athugum, hvílíkum aragrúa mála vjer höfum vísað til stjórnarinnar, þá er það mikið vafamál, að hún fái sint þeim öllum, og jeg mundi, satt að segja, ekki furða mig á því, þótt þetta mál yrði þá látið sitja á hakanum.

En til þess að sýna, að frv. er ekki ástæðulaust, skal jeg, eins og aðrir hv. þm., koma með sögu, sem sýnir, hve viðtæk og frjó starfsemi fjelagsins er. Þegar vertíðin byrjaði á Austfjörðum næstl. vetur, kom það í ljós, að þar voru að eins 2 bátar trygðir, annar í Samábyrgðinni, hinn í tryggingarfjelagi Seyðisfjarðar; það var — segi og skrifa — ? þeirra báta, sem sendir voru í hættuna sendir með vitalausri og hafnarsnauðri ströndinni. Auðvitað stafar þetta af því, að mönnum þykir ótækt að nota Samábyrgðina, en tryggingarfjelag Seyðisfjarðar tekur aðeins báta, sem ganga frá Seyðisfirði, til tryggingar. Allir aðrir bátar en þessir tveir voru tryggingarlausir eða í sjálfsábyrgð.

Samábyrgðarstjórnin telur ófært að breyta þeim ákvæðum laga og reglugerðar, sem aftra viðskiftum þarna. Hún telur því líklega kjörin boðleg, þótt flestir kjósi sjálfsábyrgð framar en hana.

Auðvitað ræður deildin, hvað hún gerir.

Út af því, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að nefndin leitaðist við að blekkja hv. þingd., þá verð jeg að segja, að jeg tel slík ummæli alveg ósæmileg og með öllu ósamboðin hv. þm. (G Sv ) og ekki bætir það úr, þótt hann yki því við, að frv. væri þó borið fram í góðum tilgangi; það er yfirklór yfir rangar fullyrðingar.