16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2882)

156. mál, samábyrgðin

Björn Stefánsson:

Jeg er sammála hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) í flestu, nema því, að hann taldi eðlilegt, að mótmæli kæmu fram gegn frv. þessu; því að jeg tel það óeðlilegt, að jafnsjálfsögðu máli skuli vera mótmælt af nokkrum. Flest það, sem frv. hefir verið fundið til foráttu, finst mjer lítilsvert, að undanteknu sumu af því, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) bar fram, sjerstaklega það, sem hann talaði um endurvátrygginguna; það er þess vert, að það sje tekið til athugunar; en það skoða jeg fremur sem bendingu um, að ástæða geti verið að koma með brtt. til 3. umr., en hitt, að fella beri frv. fyrir þá sök, að þar sje ekki nógu vel um hnútana búið. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi það ekki sæmilegt fyrir löggjafarvaldið að ganga fram, hjá endurvátryggingarfjelaginu. En úr þessu má bæta með því að taka það fram, að lög þessi skuli ekki ganga í gildi fyr en 1. janúar 1918 eða jafnvel seinna; með öðrum orðum, gefa nógan tíma til nýrra samninga, áður en komast í gildi breytingar á gildandi samábyrgðarlögum. Jeg tel engan veginn þröngvað svo kosti Samábyrgðarinuar, að nokkrar líkur sjeu til þess, að hún geti ekki náð aðgengilegum endurtryggingarsamningum við sama fjelag sem nú, eða þá við annað fjelag. Á því ríður þó, að samningum sje hraðað, því að helst mætti það ekki dragast lengur en til marsmánaðarloka 1918, að þessar breytingar, sem hjer er um rætt, kæmust á.

Þá var háttv. þm. (E. A.) að tala um, að svo þyrfti um að búa, að Samábyrgðarfjelagið yrði ekki til frambúðar ómagi á landssjóði. Jeg veit ekki, nema það væri þó eðlilegt, að landið hjeldi áfram að styrkja stofnun þessa. Hjer er verið að ræða um að styrkja og tryggja stærsta atvinnuveg landsins, þann atvinnuveg, sem gefur landssjóði mestar tekjurnar, og, sannast að segja, tel jeg það enga goðgá, þótt landssjóður hlaupi þar undir bagga með lítils háttar fjárframlagi, því að með því er hann að tryggja sjálfan sig og efla; hann fær ekki litlar tekjur af hverjum einum mótorbát, sem sjó stundar, og um leið og útvegsmaður missir bát sinn, missir landssjóður tekjurnar af honum; því er um að gera fyrir hann að stuðla að því, að þeir, sem missa báta sína, geti haldið framkvæmdum sínum og framleiðslu áfram, og að nýr bátur komi jafnharðan í skarðið. Það er bráðnauðsynlegt að sporna við því, að sjó sæki óvátryggðir bátar, fleiri hundruð þúsunda króna virði. Í vetur voru einir tveir bátar vátrygðir af öllum þeim bátafjölda, sem veiðar stunda austanlands. Þetta má ekki svo til ganga, og full ástæða til að hlutast til um, að breyting verði á þessu; en til þess þarf fyrst og fremst að breyta ábyrgðarkostunum. Væri nú svo, sem hvorki er sýnt nje sannað, að Samábyrgðinni væri svo íþyngt með ákvæðum frv., að hún bæri sig ekki, þá verður landssjóður að hlaupa undir bagga, því að sjávarútvegurinn þolir ekki þyngri kosti en honum eru boðnir hjer.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að máli þessu væri flaustrað inn á þing óundirbúnu. Jeg kannast ekki við, að svo sje; það hefir legið fyrir fjórðungsþinginu, verið rætt og athugað á fiskiþingi Íslands, og sjávarútvegsnefndin hefir haft það til meðferðar og borið sig saman við samábyrgðarstjórnina um það. Þetta kalla jeg ekki að kasta málinu óundirbúnu inn á þing.

Þá hefir verið lagt til að vísa málinu til stjórnarinnar, og því talið þannig best borgið. Ekki búumst vjer við miklum umbótum úr þeirri átt. Það má gera ráð fyrir, að hún beri málið undir stjórn samábyrgðarfjelagsins og fari eftir tillögum þess, en eftir undanfarinni reynslu viljum vjer ekki við það una, og ræða hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sýnir fullljóslega, hvers þaðan muni vera að vænta.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) játaði, að hv. þm. V.-Ísf, (M. Ó.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefðu gott vit á máli þessu, en hvorki hann nje aðrir hv. þdm. hefðu átt kost á að ganga í læri hjá þeim. En fyrst að svo er, þá ætti hv. þm. (E. A.) að láta sjer sæma að fara eftir orðum og áliti sjer fróðari manna; á þann veg er líklegast, að hann geti firt sig því að fremja glapræði.