25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Bjarni Jónsson:

Jeg þarf ekki að orðlengja um útflutningstoll. Jeg hefi svo oft sagt það áður, og að jeg hygg með góðum rökum, að útflutningstollar eigi ekki að eiga sjer stað. Sjerstaklega var jeg mótfallinn verðhækkunartollinum, af sömu ástæðu, enda er hann nú sjálffallinn. Útflutningstollana gjalda sumir landsmenn, en aðrir ekki. Þess vegna eru þeir ranglátir og eiga að falla. Þar sem hjer er að ræða um bráðabirgðaútflutningstoll af sjávarafurðum, þá get jeg auðvitað ekki orðið því fylgjandi. Jeg er sammála hæstv. fjármálaráðh. (B.K ) um það, að með þessu sje annari af tveimur aðalatvinnugreinum vorum bundinn ranglátur og óeðlilegur baggi. Þessi atvinnugrein er nú auk þess í háska stödd og síst fær um að bera auknar álögur. Það, sem mjer líkar best af tilraunum háttv. fjárhagsnefndar til að auka tekjur landssjóðs, er frv., í líkingu við frv. mitt, um tekjuskatt. Verði það að lögum, þá kemur það niður á sjávarútvegsmönnum, ef gróði þeirra er svo mikill, að ástæða sje til að leggja álögur á þá. Þar sem sá skattur á að koma í stað verðhækkunartollsins, þá er engin ástæða til að leggja nýjan verðhækkunartoll á þessa menn, svo að þeir verði að gjalda tvenn gjöld, í staðinn fyrir ein. Jeg hygg, að það sje frágangssök að hækka álögur á atvinnuvegum á annan hátt en með tekjuskatti, þótt ekki sje nema til bráðabirgða. Þetta gjald mundi hvíla mjög þungt á útgerðarmönnum í ár. Eins og öllum er kunnugt vinna þeir allir eða allflestir með skaða, en engum gróða. Aftur á móti hefir tekjuskatturinn þann mikla kost, að hann nær til annara, sem græða. Kaupmennirnir hafa, eins og allir vita, stórgrætt á stríðinu. Eftir orðum viturs og sannorðs manns hjer í deildinni hafa þeir grætt svo mikið, að engum þeirra hefir tekist að fara á höfuðið síðan stríðið byrjaði, sem þeim þó hepnaðist oft áður. Ef það er satt, að kaupmenn stingi í sinn vasa 100% af fæði og klæði fátæklinganna, þá er rjettmætt að leggja á þá tekjuskatt. Þann kost hefir tekjuskattsfrv. fram yfir öll önnur, að það nær í gróðann, þar sem hann er til. En þetta finst mjer að bera í bakkafullan lækinn, að ætla sjer að leggja tvöfalt gjald á sjávarútvegsmenn, fyrst útflutningsgjald af afurðunum og síðan tekjuskatt, og það því fremur, sem nú virðist meiri ástæða til að styrkja þessa atvinnugrein en að íþyngja henni með gjöldum.