25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Jónsson:

Af því að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) mintist á það, að hann hefði borið undir flokk hjer í þinginu frv., sem hann ætlaði að bera fram, og jeg geng út frá, að hann eigi hjer við bændaflokkinn, þá finn jeg mjer skylt að segja nokkur orð. Það reyndist svo, að flokkurinn sá sjer ekki fært að aðhyllast þá stefnu, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) er fylgjandi, að lögleiða alment útflutningsgjald á allar afurðir. Þótt það sje rjett, að auðvelt sje að ná þessum tolli, þá fylgja honum þó tveir ókostir. — Þótt hann næði til margra, þá yrðu samt ýmsir undanþegnir sem ekki framleiða neitt, en eru þó allvel efnum búnir. Þeir nytu þá hlunninda, sem afleiðingar af því, að þeir legðu efni sín í eitthvað annað en framleiðslu. Hinn ókosturinn er sá, að það er yfirleitt óvinsælt að leggja á útflutningstolla. Menn sætta sig yfirleitt betur við aðflutningstollana, þótt þeir komi ekki rjettlátlega. niður, því að yfirleitt veita menn því ekki eftirtekt, hve mikið rennur í landssjóð af andvirði þess, sem menn kaupa, og amast því síður við því. Hvað snertir þetta. frv. þá held jeg, að það sje dálítið óheppilegt. Menn reka augun í það, að hækkaður er tollur á sjávarafurðum eingöngu, en ekki líka á landbúnaðarafurðum. Þetta frv. hlýtur því að valda óánægju annars atvinnuvegarins og gæti leitt til óvináttu á milli þeirra. það er ekki heldur rjettlátt að haga þessu svona. Eftir gömlum lögum mun þess hafa verið gætt, að sjávarútvegsmenn gyldu í landssjóð hlutfallslega á móti ábúðar- og lausafjárskattinum sem bændur greiða. Það er því ekki rjettlátt að hækka útflutningsgjald af sjávarafurðum um helming, en láta ábúðar- og lausafjárskattinn halda sjer. Þó að bændur sjeu margir á þingi, þá erum við ekki svo ásælnir, að við getum ekki litið sanngjörnum augum á hlutina. Að vísu má gera ráð fyrir, að ábúðarskatturinn hækki eitthvað, þegar fasteignamatið er komið í kring og farið er að reikna skattinn eftir því, en jeg hygg, að skattgjald landbúnaðar og sjávarútvegar haldist nokkurn veginn í hendur, eins og nú er. Jeg held, að það sje ekki efnilegt til samkomulags, sem háttv. fjárhagsnefnd bendir á. Þó að ekki sje gott, þá mundi jeg heldur sætta mig við frv. stjórnarinnar um bráðabirgðaframhald verðhækkunartollsins. — Jeg greiði því atkvæði á móti þessu frv.