25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Einar Jónsson:

Jeg get verið mjög stuttorður, fyrst að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er búinn að tala á undan mjer. Hann tók fram flest af því, sem jeg ætlaði að segja um frv., og færði svo skýr rök fyrir því, að jeg hefi ekki miklu við það að bæta. En jeg kann ekki vel við þau orð, sem bændastjettin hefir fengið frá hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) sagðist ekki ætla að álasa bændastjettinni, en ljet þó falla ýms orð, sem jeg held að hefðu betur verið ósögð, um eigingirni, eiginhagsmuni, eigingjarna flokka o. s. frv. Hann er þar sjálfur í svo veiku húsi, og sumt af því, sem hann sagði, hjó ekki svo fjarri honum sjálfum, að jeg hjelt, að hann mundi hlífast við að láta sjer þau orð um munn fara. Jeg gæti mint hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) á ýmislegt, sem kemur við eiginhagsmunum og eigingirni, en jeg hjelt, að hægt væri að tala um þetta frv. án þess að fara út í þá sálma. — Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) er gjarnast að svara okkur bændum um samanburð á gjöldum og um það, að við viljum ekki, að landbúnaðurinn sje látinn greiða neitt til almenningsþarfa. Mín skoðun er sú, að þetta sje ekki á neinum rökum bygt. Jeg fyrir mitt leyti hefði haldið, að ekki myndi ráðlegt að samþykkja þetta frv., því að sjávarútvegsmönnum kynni að vera íþyngt með því. En nú hefi jeg fyrir mjer orð hv. 1. þm S.-M. (Sv. Ó.), að svo muni ekki vera. Jeg geri því ráð fyrir, að hjer sje ekki verið að níðast á neinum um skör fram. — Jeg ætla ekki að tala langt mál um þetta, en get eigi látið hv. deild einráða um, hvaða leið hún heldur til að afla tekna. En mjer er það ekki ókærara en öðrum, að haldið sje sem mestum jöfnuði milli atvinnuveganna.

Jeg hygg, að hv. þingmenn hafi tekið eftir þeim tölum, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fór með. Hann sýndi fram á það, að þessi hækkun munaði sjávarútveginn 30—40 þús. kr., sem ekki verður talið ægilegt. En svo er á hitt að líta, að afli er lítill nú sem stendur, og er jeg þess vegna nokkuð hikandi við að greiða atkv. með frv., og vildi gjarnan heyra fleiri rök meðhaldsmanna þess. Jeg býst ekki við, að nokkur þori að væna mig þess, að jeg hafi þá ástríðu að vilja leggjast á sjávarútveginn, en hlífa landbúnaði, með ójöfnum hlutföllum. Og þótt jeg vilji eigi illyrðast við einstaka menn, þá vil jeg þó alvarlega mótmæla þeim orðum hæstv. fjármálaráðh. (B.K.), að vjer bændur sjáum eftir gjöldum vorum til landssjóðs. Þau

orð eru algerlega gripin úr lausu lofti, sem og hitt, að bændur myndi óheilbrigða hringa eða flokka, og sýni eigingirni fremur en aðrir hv. þingmenn. Hjer er einmitt snúið við blaðinu — öfugt þó — og orð þessi komin frá manni (B.K.), sem alment er álitið að eigi sje síður eigingjarn en aðrir í landi voru, og væru tök á að færa rök fyrir þessu, ef með þyrfti. En að þessu sinni skal því slept, en því við bætt, að hjer höggur sá, er hlífa skyldi.