25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pjetur Jónsson:

Jeg býst við því, að menn hafi ætlast til, að það væri yfirleitt hlutverk fjárhagsnefndar að annast fjárhag landsins, finna ráð til þess að rífka tekjurnar, svo að ofurlítið yrði hamlað upp á móti þeim tekjuhalla, sem sjálfsagt verður á þessu ári og næsta fjárhagstímabili. Þetta hefir fjárhagsnefndin reynt að gera með ýmsum tillögum, þar á meðal með tekjuskattsfrv., en þær tilraunir hafa ekki verið metnar að verðleikum, og enn virðist svo, sem undirtektirnar ætli ekki að verða eins og þær ættu að vera, þegar nú þessi síðasta tilraun kemur fram, frv., sem nú liggur fyrir.

Jeg sje nú ekki betur en að alveg sje í óefni komið, ef tillögur nefndarinnar eru drepnar vegna hnotabíts á milli atvinnuvega landsins. Þessi metingur er algerlega óviðeigandi. Jeg skal nú ekki fara út í neinn samanburð, en benda vil jeg á það, að hjer er ekki um neina verulega kvöð á sjávarútveginn að ræða; aðallega legst gjaldið á kaupmennina, sem setið hafa með gróða af ófriðarástandinn til þessa, en ekki eða mjög lítið á framleiðendurna. En ef menn eru óánægðir með frv. sjerstaklega af því, að það nær ekki til landbúnaðarins, þá hefir nú verið sýnt framá, að útflutningsgjald af fiski og lýsi var upphaflega sett til þess að vega á móti ábúðar- og lausafjárskatti. En ef mönnum finst nú vogarskálin heldur halla í hag landbúnaðinum, væri þá ekki reynandi að hækka ábúðar- og lausafjárskattinn, fremur en að ýta af sjer þessu gjaldi með metingi. Jeg fyrir mitt leyti álít það miklu tiltækilegra og sæmilegra, úr því að um bráðabirgðaráðstöfun er að ræða, að hækka þá skatta, sem til eru, heldur en að búa til nýtt útflutningsgjald á landbúnaðarafurðir, sem ekki hefir þekst áður. Þess vegna er það, að þótt jeg geti ekki verið með því að leggja nýtt útflutningsgjald á landbúnaðinn, þá er hitt annað mál, þótt hækkaðir væru skattar, sem á landbúnaðinum hvíla, ef heldur þykir halla á sjávarútveginn. Er jeg reiðubúinn til þess að vera með því, ef á þarf að halda.